Fótbolti

Hallbera: Þær áttu að skora þrjú mörk eftir sendingar frá mér

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hallbera stekkur upp á hópinn sem fagnar marki.
Hallbera stekkur upp á hópinn sem fagnar marki. vísir/vilhelm
"Lykilatriðið er að fá þrjú stig, en auðvitað erum við svekktar með að skora ekki fleiri mörk," sagði Hallbera Gísladóttir, bakvörður kvennalandsliðsins, við Vísi eftir 2-0 sigurinn gegn Hvíta-Rússlandi í kvöld.

Stelpurnar okkar hófu undankeppni EM 2017 af krafi og lögðu varnarsinnað lið Hvíta-Rússlands auðveldlega að velli. Mörkin hefðu þó átt að vera fleiri miðað við hvað Ísland var mikið með boltann.

Sjá einnig:Margrét Lára: Þetta var Beckham-víti

"Þegar þær fengu boltann reyndu þær eitthvað aðeins að senda hann á milli sín en svo spörkuðu þær bara út af. Það er alltaf erfitt að komast í gegnum svona varnarpakka en við náðum að skora tvö í dag," sagði Hallbera.

"Það var ógeðslega blautt en við náðum að halda boltanum vel. Við þurfum bara að æfa okkur meira að opna svona varnir. Við erum að fara að spila á móti liðum sem eru slakari en við og munum lenda í svipuðum leikjum oftar."

Hallbera óð upp vinstri kantinn skipti eftir skipti í kvöld og átti margar frábærar fyrirgjafir. Það var ekki fyrr en Dagný Brynjarsdóttir mætti einu sinni á fjærstöngina í seinni hálfleik sem íslenska liðið nýtt eitthvað af þessum gullfallegu sendingum hennar.

"Þær áttu að skora þrjú mörk allavega," sagði Hallbera hress og kát að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×