Fótbolti

Aron fékk frí hjá Werder Bremen vegna fráfalls ömmu sinnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Jóhannsson spilar vonandi næsta leik með Werder Bremen.
Aron Jóhannsson spilar vonandi næsta leik með Werder Bremen. vísir/getty
Aron Jóhannsson, framherji Werder Bremen í þýsku 1. deildinni í fótbolta, er staddur á Íslandi þessa dagana til að fylgja ömmu sinni, Jónu Gróu Sigurðardóttur, til grafar.

Amma hans lést 17. september, en í minningargrein föður hans, Jóhanns Gíslasonar, um tengdamóður sína í Morgunblaðinu í dag segir hann frá því hversu mikinn áhuga Jóna Gróa hafði á Aroni og knattspyrnuferli hans.

Aron gat ekki spilað með Werder Bremen í 3-0 tapi liðsins gegn Bayer Leverkusen um síðustu helgi vegna meiðsla og æfði einn á sunnudaginn áður en hann hélt heim til Íslands í gærmorgun.

„Á fimmtudaginn mun læknir liðsins skoða Aron og þá verður ákveðið hvort hann geti hafið æfingar að fullu,“ segir Marita Hanke, fjölmiðlafulltrúi Bremen, við fréttasíðu MLS-deildarinnar.

Aron er meiddur í nára, en þýska blaðið Kicker greindi frá því í gær að Viktor Skripnik, þjálfari Werder Bremen, er vongóður um að Aron verði til taks fyrir ferðina til Hannover á laugardaginn.

Aron er búinn að skora tvö mörk í fjórum leikjum fyrir Bremen-liðið sem er í 13. sæti þýsku 1. deildarinnar eftir þrjú töp í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×