Innlent

Slóðin að kólna í rannsókn á smygli

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Norræna í höfn í Þórshöfn í Færeyjum í lok síðustu viku.
Norræna í höfn í Þórshöfn í Færeyjum í lok síðustu viku. Fréttablaðið/ÓKÁ
Mistök kunna að hafa verið gerð við rannsókn lögreglu á Austurlandi á umfangsmiklu fíkniefnasmygli með Norrænu sem uppgötvaðist síðasta miðvikudag. Þetta er mat sérfræðings í fíkniefnarannsóknum, sem Fréttablaðið leitaði til. 90 kíló af hörðum fíkniefnum fundust falin í bíl hollensks pars á fertugsaldri, sem nú situr í tveggja vikna gæsluvarðhaldi. Um er að ræða eitt umfangsmesta fíkniefnasmygl sem upp hefur komið hér á landi.

Lögreglufulltrúi á Austurlandi svaraði Vísi svo til í gær að ekkert yrði gefið upp um málið eða einstaka þætti þess. Rannsóknin væri á viðkvæmu stigi og ætti ekki heima í fjölmiðlum. Lögregla vildi halda upplýsingum fyrir sig svo hægt væri að spyrja „menn ómengað“ í yfirheyrslum.

Í yfirlýsingu Ingerar Jónsdóttur, lögreglustjóra á Austurlandi, á miðvikudag segir hún málið hafa verið unnið í samstarfi lögreglustjórans á Austurlandi, embættis tollstjóra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og færeyskra tollayfirvalda. Þá var greint frá því í fréttum Stöðvar 2 þann sama dag að baki fundinum væri vönduð áhættugreining tollsins.

Heimildarmaður blaðsins, sem hefur áratugareynslu af rannsóknum fíkniefnamála og hefur komið að rannsókn viðamikilla mála, segir margt benda til þess að rannsókn lögreglunnar á Austurlandi sé í uppnámi, slóðin sé að kólna vegna afdrifaríkra mistaka. Þannig bendi margt til þess að fíkniefnin hafi fundist fyrir hreina og klára tilviljun.

Tilviljun hafi ráðið því að frétta­töku­lið frá Stöð 2 var á staðnum þegar fíkniefnin uppgötvuðust í bíl hollenska parsins. Sérfræðingurinn segir að ráða megi af veru sjónvarpstökufólksins að aðgerðir tollsins og lögreglu hafi ekki verið skipulagðar. Vart hafi orðið við eitthvað grunsamlegt og ákveðið að kanna það nánar.

Þá segir hann það eitt að gefa út í fjölmiðlum að fundurinn hafi verið í kjölfar áhættugreiningar vera stór mistök. Þar sé um að ræða mikilvægar upplýsingar sem undir engum kringumstæðum eigi að fara til fjölmiðla. Þarna hafi verið send skilaboð til þeirra sem stóðu að innflutningnum, sem á sömu stundu hafi áttað sig á að ekki væri verið að hlera þá.

Sérfræðingurinn segir viðvaningsblæ á rannsókn lögreglu á Austurlandi og menn séu hugsi yfir því að lítil rannsóknardeild á Austfjörðum skuli rannsaka jafn viðamikið og flókið mál. Spyrja mætti spurninga um hvenær sú rannsóknardeild hafi rannsakað eða upplýst flókin alþjóðleg smyglmál og kveðst hann telja að kalla ætti til færasta fólkið til að glíma við stór mál. Þannig væri tryggð hámarksnýting skattfjár og að mál séu leyst öllum til hagsbóta.

Álit sérfræðingsins:

Heimildarmaður Fréttablaðsins sem sérfróður er um fíkniefnarannsóknir og hefur komið að mörgum slíkum segir fyrstu mínúturnar og klukkustundirnar eftir stóran fíkniefnafund geta skipt öllu máli. Í gang fari æðisgengin atburðarás, þar sem meðal annars þurfi að hefja hleranir og kanna hvort á svæðinu séu góðkunningjar lögreglu. Oft ráðist framhald mála á þessum fyrstu klukkustundum. Hann kveðst óttast að tapast hafi dýrmætur tími fyrir austan, en kannski finnist einhvers staðar veik slóð sem ná megi með góðri aðstoð. Hún sé þó að kólna.


Tengdar fréttir

Fíkniefni á hundruð milljóna

Hald var lagt á hátt í níutíu kíló af fíkniefnum á Seyðisfirði á þriðjudagsmorgun. Ljóst er að markaðsvirðið hleypur á hundruðum milljóna. Hollenskt par var dæmt í tveggja vikna gæsluvarðhald vegna smyglsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×