Innlent

Segir Ísraelstillögu samþykkta óútfærða því Björk var að hætta

ingvar haraldsson skrifar
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir óljóst til hvaða vara sniðgangan muni ná.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir óljóst til hvaða vara sniðgangan muni ná. vísir/stefán
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur telur að undirbúa hefði mátt sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum betur. Ekki er búið að ákveða hvaða ísraelsku vörur verði sniðgengnar og með hvaða hætti það verði gert.

„Kjarni málsins snýr að því að skilgreina sniðgöngu á vörum sem tengjast mannréttindabrotum og þar beinast auðvitað sjónir að hernumdu svæðunum og landtökubyggðunum,” segir Dagur. Hann sjái ekki sjá fyrir sér að að kaupum á öllum ísraelskum vörum verði hætt. Horft verði til fordæma annara borga og fyrirtækja sem hafi verið að skoða sambærilega hluti við útfærslu á sniðgöngunni.

Hefði ekki verið eðlilegra að finna útfærsluna áður en þið samþykktuð þetta?

„Jú, jú, það má alveg segja það.”

En af hverju var það ekki gert?

„Þetta tengdist auðvitað því að Björk Vilhelmsdóttir var að hætta í borgarstjórn og þetta var hennar lokatillaga,” segir Dagur.

Borgarstjórinn segist engin formleg viðbrögð hafa fengið frá ísraelskum stjórnvöldum vegna málsins annað en það sem birst hafi í fjölmiðlum. „Við erum að sjálfsögðu fús til viðræðna við alla um þessi mál,” segir hann.

Dagur segir tillöguna vera í samræmi við fyrri framgöngu borgarinnar í mannréttindamálum. Reykjavíkurborg hafi áður gert athugasemdir við kínversk stjórnvöld vegna framkomu þeirra gagnvart andhófsmönnum sem og vegna lagasetningar gagnvart mannréttindabrotum samkynhneigðra í Moskvu.

Áhrifalítið geri aðrir ekki slíkt hið sama

Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands segir nokkuð sérstakt að Reykjavík hafi ekki haft samband við stjórnvöld vilji þau að tillagan skili árangri. „Þessi tillaga mun litlu skila ef borgin fylgir þessu ekki eftir með því að tala t.d. við höfuðborgir annara Norðurlanda, vinaborgir sínar eða íslensk stjórnvöld fylgi fordæmi sínu,“ segir Baldur.

En fylgi aðrar borgir eð ríki fordæmi Reykjavíkurborgar geti tillagan haft mikil áhrif. Ísraelar óttist mjög að vera beittir víðtæku viðskiptabanni sem myndi gera þeim mjög erfitt fyrir og því hafi Ísraelar svarað Reykjavíkurborg af mikilli hörku.


Tengdar fréttir

Ráðherra segir sniðgöngu áhrifalausa

Utanríkisráðherra segir það hafa engin áhrif þótt borgin sniðgangi ísraelskar vörur. Hann efast um að ákvörðunin standist lög um opinber innkaup.

„Mátti auðvitað búast við viðbrögðum“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir hörð viðbrögð við ákvörðun borgarinnar um að sniðganga vörur frá Ísrael ekki hafa komið sér á óvart. Unnið sé að því að útfæra ákvörðina eins vel og hægt sé.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.