Innlent

Vissu ekki hvaða vörur þau voru að sniðganga

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Borgarfulltrúar Reykjavíkurborgar vissu ekki hvaða vörur þeir voru að sniðganga þegar borgin samþykkti tillögu um viðskiptabann á vörur frá Ísrael í nafni mannúðar og samstöðu með Palestínumönnum. 

Ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkurborgar að sniðganga vörur frá Ísrael þykir umdeild. Bent hefur verið á að stjórnsýsla sveitarfélaga sé lögbundin og utanríkismál heyri ekki undir verkefni þeirra.

Þegar lögfræðingar segja að stjórnsýslan sé lögbundin þá felst í því að ákvarðanir stjórnvalda verða að eiga sér stoð í lögum og vera í samræmi við lög.

„Ísraelskum vörum“

Orðrétt stendur í bókun borgarstjórnar: „Borgarstjórn samþykkir að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir." 

Er ekki borgin að fara langt út fyrir sitt verksvið með þessari bókun? „Nei, við höfum bæði sett okkur innkaupastefnu og innkaupareglur á grundvelli laga og eitt af því sem segir skýrt í stefnunni er að auk kostnaðar þá tökum við miða af gæðum, umhverfismálum og mannréttindum við innkaup hjá borginni,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. 

Dagur hefur sagt að þetta sé ekki allsherjarviðskiptabann heldur sniðganga á vörum sem tengjast mannréttindabrotum á hernumdu svæðunum. 

Er gerður áskilnaður um það í texta tillögunnar. Þegar hún er lesin þá sést að þar er bara talað um vörur frá Ísrael? „Ísraelskar vörur með vísan til þessarar greinar í innkaupastefnu borgarinnar. Þannig er þetta hugsað en núna er útfærslan eftir. Ég tek eftir því, eins og aðrir í umræðunni, að þetta hefur ekki alveg komist til skila.“

Hætti við að koma til Íslands

Morgunblaðið greindi frá því í dag að William Ian Miller prófessor í háskólanum í Michigan í Bandaríkjunum hefði hætt við að koma til Íslands næsta vor en til stóð að hann héldi námskeið um Íslendingasögurnar í Háskóla Íslands. Miller er gyðingur og hefur nú skrifað borgarstjórn opið bréf þar sem hann segist þurfa að aflýsa ferð sinni vegna ályktunarinnar. Þá hefur Evrópska gyðingaþingið, sem eru samtök gyðinga í Evrópu, falið lögfræðingum að athuga hvort efni séu að bregðast sérstaklega við ákvörðun borgarstjórnar.

Björk Vilhelmsdóttir er manneskjan á bak við tillöguna. Það var hennar síðasta verk í borgarstjórn að leggja hana fram.
Einhverjir hafa séð spaugilegu hliðina á málinu. Gunnlaugur Jónsson ákvað skella þessum límmiða í bílrúðuna hjá sér (sjá myndskeið með frétt) en þar segir: „Ísraelskur ríkisborgari. Vegna viðskiptabanns Reykjavíkurborgar á Ísrael er óheimilt að greiða stöðugjald eða stöðubrotsgjald vegna þessarar bifreiðar. Vinsamlegast virðið það og sektið ekki.“

Hvaða vörur eru þetta?„ Við vitum það ekki. Við teljum að það sé mjög lítið. Að því leyti er þetta fyrst og fremst táknræn yfirlýsing en við munum fara yfir það núna,“ segir Dagur. 

Þannig að borgarstjórn Reykjavíkurborgar vissi ekki hvaða vörur hún var að sniðganga þegar hún samþykkti þessa ályktun? „Nei, og það kom alveg skýrt fram í umræðum í borgarstjórn. Að við ætluðum að horfa til umræðunnar í Kaupmannahöfn, við ætlum að horfa til umræðunnar annars staðar og það þarf að vanda til verka í þessari útfærslu.“ 


Tengdar fréttir

Ráðherra segir sniðgöngu áhrifalausa

Utanríkisráðherra segir það hafa engin áhrif þótt borgin sniðgangi ísraelskar vörur. Hann efast um að ákvörðunin standist lög um opinber innkaup.

Reykjavíkurborg mun sniðganga varning frá Ísrael

Eitt aðalmál borgarstjórnarfundar Reykjavíkur í gær var síðasta tillaga Bjarkar Vilhelmsdóttur í borgarstjórn um að Reykjavík sniðgangi vörur frá Ísrael á meðan hernám Ísraela á landi Palestínumanna varir.

„Mátti auðvitað búast við viðbrögðum“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir hörð viðbrögð við ákvörðun borgarinnar um að sniðganga vörur frá Ísrael ekki hafa komið sér á óvart. Unnið sé að því að útfæra ákvörðina eins vel og hægt sé.

Segir að fólk þurfi að vera samkvæmt sjálfu sér

„Við teljum að þetta skili ekki miklum árangri,“ segir Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins um stefnu Reykjavíkurborgar um að sniðganga vörur frá Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×