Fótbolti

Líklegt byrjunarlið íslenska landsliðsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Daði Böðvarsson fór á kostum í fyrri leiknum gegn Hollandi.
Jón Daði Böðvarsson fór á kostum í fyrri leiknum gegn Hollandi. Vísir/ÓskarÓ
Hollensku dagblöðin eru afdráttarlaus í umfjöllun sinni fyrir leikinn í kvöld. Allt nema sigur væri útreið fyrir þá appelsínugulu. Mikið er gert úr þeirri staðreynd að Arjen Robben, nýr fyrirliði landsliðsins, sé kár í slaginn og líklegur til þess að skora. Reikna má með því að hollenska liðið blási til sóknar frá fyrstu mínútu og mæti með byssurnar á lofti eins og Alfreð Finnbogason orðaði það við mig á æfingu landsliðsins hér í Amsterdam.

Strákarnir okkar horfðu saman á Everest, nýja mynd Baltasars Kormáks í gærkvöldi, með góðfúslegu leyfi leikstjórans. Hefð hefur skapast að horfa saman á bíómynd kvöldið fyrir útileiki liðsins.

Byrjunarliðið hefur ekki verið tilkynnt opinberlega en reiknað er með að það verði hið sama og í 2-1 sigrinum á Tékkum  í júní nema að Jón Daði Böðvarsson komi inn fyrir Emil Hallfreðsson sem er meiddur. Hannes Þór verði í markinu, Birkir Már, Ragnar, Kári og Ari Freyr í vörninni. Aron Einar og Gylfi Þór á miðjunni, Birkir Bjarna og Jóhann Berg á köntunum og þeir Jón Daði og Kolbeinn Sigþórsson í fremstu víglínu.

Það er skýjað í Amsterdam í dag og í kvöld, þegar flautað verður til leiks er reiknað með um 12 stiga hita og skúrum, með öðrum orðum, íslensku sumarveðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×