Erlent

Höskuldur Kári í Búdapest: „Mjög magnað andrúmsloft“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Höskuldur Kári Schram var í beinni útsendingu frá Ungverjalandi í hádeginu.
Höskuldur Kári Schram var í beinni útsendingu frá Ungverjalandi í hádeginu. Vísir/Vilhelm/EPA
Straumur flóttamanna til Þýskalands eykst og enn bíða margir í Ungverjalandi. Yfirvöld í Þýskalandi áætla að um átta þúsund örmagna flóttamenn hafi komi til landsins á síðustu tólf klukkustundum.

Höskuldur Kári Schram, fréttamaður Stöðvar 2, er í Búdapest en hann var í beinni útsendingu í hádegisfréttum Bylgjunnar og lýsti ástandinu á lestarstöðinni Keleti.

„Það fór ein lest í morgun til Austurríkis með um hundrað til tvöhundruð flóttamenn. Ég spjallaði við nokkur þeirra og þetta var aðallega fólk frá Sýrlandi eða Afganistan. Flestir ef ekki allir sögðust vera að flýja stríðsátök og nánast allir vonuðust til þess að fá hæli í Þýskalandi,“ sagði Höskuldur Kári.

Lestarstöðin í Búdapest hefur verið full af flóttamönnum að undanförnu.NordicPhotos/AFP
Yfirvöld í Ungverjalandi hafa verið sökuð um mikla harðneskju í garð flóttamanna en lögreglumenn hafa fengið auknar heimildir til valdbeitingar. Flestir þeirra sem koma til Ungverjalands eru að flýja borgarastyrjöldina í Sýrlandi sem hefur lagt landið í rúst á síðustu árum og kostað þúsundir lífið. Flestir hafa farið í gegnum Tyrkland, Grikkland og Makedóníu á leið sinni.

„Keleti lestarstöðin hefur verið eins og birtingarmynd flóttamannastraumsins til Evrópu. Það má sjá flóttamenn út um allt, fólk sefur á gólfinu; heilu fjölskyldurnar, gamalmenni og börn. Hér hafa sjálfsboðaliðar boðið fólkinu upp á mat og föt. Hér er mjög magnað andrúmsloft. Annað er ekki hægt að segja.“

En hvernig er hljóðið i heima mönnum í Búdapest?

„Mjög skiptar skoðanir. Sumir eru mjög jákvæðir, sumir hafa komið á lestarstöðina  með mat og föt. Svo eru aðrir sem óttast það að landið fyllist af hælisleitendum og því fylgi menningarárekstrar.

Svo var ein kona sem ég talaði við sem hafði aðallega áhyggjur af því að þessir flóttamenn væru að setja lestarsamgöngur úr skorðum.“

Rætt verður aftur við Höskuld í kvöldfréttum Stöðvar 2 og þá mun hann sýna myndir af vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×