Innlent

Byrjendalæsi: "Ályktanir minnisblaðsins nánast marklausar“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá Háskólanum á Akureyri
Frá Háskólanum á Akureyri vísir/pjetur

Minnisblað Menntamálastofnunar þar sem lagt er mat á árangur verkefnisins Byrjendalæsi hefur „margvíslega alvarlega galla sem gera ályktanir minnisblaðsins nánast marklausar.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri sem gerir athugasemdir við vinnubrögð Menntamálastofnunar.

Í yfirlýsingu frá Miðstöð skólaþróunar er bent á annmarka sem Miðstöð skólaþróunar telur að hafi verið á minnisblaði Menntamálastofnunar, m.a. séu línurit óskýr og skýringartexti ónákvæmur.

Sjá einnig: Lesskilningi hrakar í 80 grunnskólum sem tóku upp nýja kennsluaðferð

Bent er á að samanburður á niðurstöðum skóla allt að átta ár fram í tímann sé varasamur þar sem ótal þættir aðrir en innleiðing Byrjendalæsis hafi áhrif á þær breytingar sem geta orðið. Einnig sé varasamt að að skoða fjögurra ára tímabil áður en fyrsti árgangur í Byrjendalæsi komi í fjórða bekk, árgangurinn á undan fyrsta árangi skori t.d. mun hærra en árgangarnir þrír á undan og næstu sjö á eftir sem skekki meðaltalið.

Jafnframt segir að starfsþróun og breyting á skólastarfi taki tíma og gögnin sem Menntamálastofnun byggir á sé frá viðkvæmum tíma þegar kennarar væru að tileinka sér og ná tökum á starfsháttum Byrjendalæsis. Samkvæmt innra mati á árangri á Byrjendalæsi bendi árangur barna sem læra eftir aðferðum Byrjendalæsis til þess að hann hafi verið umtalsverður. Samanburður undanfarinna ára sýnir að börn nái betri árangri í lestri og hafi hann gagnast börnum sem hafi átt erfitt með að læra að lesa.

Sjá einnig: Þetta eru skólarnir sem tóku upp Byrjendalæsi

Í yfirlýsingunni segir að minnisblað Menntamálastofnunar geti því ekki talist áreiðanlegt mat á langtímaáhrifum verkefnisins fyrir námsframvindu þeirra nemenda sem tóku þátt í því við upphaf skólagöngu.


Tengd skjöl


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.