Fótbolti

Sepp Blatter: Ég er hreinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sepp Blatter.
Sepp Blatter. Vísir/Getty
Sepp Blatter, forseti FIFA, segist í viðtali við BBC að hann sé með hreina samvisku og algjörlega saklaus þegar kemur að spillingarmálunum sem margir háttsettir FIFA-menn eru flæktir í.

Sepp Blatter hefur verið forseti FIFA frá árinu 1998 en hann mun láta af embætti í febrúar næstkomandi. Blatter var kosinn forset FIFA í fimmta sinn í maí en tilkynnti síðan að hann ætlaði að segja af sér og boða til nýrra kosninga.

„Ég gerði það til að verja FIFA. Ég get varið sjálfan mig því ég nógu sterkur til þess," sagði Sepp Blatter við blaðamann BBC.

Sepp Blatter hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir það hvernig komið er fyrir FIFA og hvernig Alþjóðasambandið og háttsettir menn innan þess voru á bólakafi í grófri misnotkun á peningum frá sambandinu.

Blatter sjálfur hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu og það breyttist ekki í þessu viðtali.

„Ég veit hvað ég hef gert og hvað ég hef ekki gert. Ég hef mína hreinu samvisku og ég er heiðarlegur maður. Ég er hreinn," sagði Blatter í viðtalinu.

Tvær lögreglurannsóknir eru enn í gangi vegna spillingarmála innan FIFA en sjö starfsmenn sambandsins voru handteknir rétt fyrir ársþingið í maí.

Meðal þess sem hefur verið rannsakað eru útboðin til að halda heimsmeistarakeppnirnar 2018 og 2022 en vangaveltur hafa verið uppi um að Rússland og Katar gætu missa keppnirnar ef sannanir um mútugreiðslur koma fram í dagsljósið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×