Innlent

Forstöðumaður Fjölskyldugarðsins vill geta sleppt dýrum eins og kópnum sem var drepinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Selkópurinn sem var lógað.
Selkópurinn sem var lógað. Vísir/Andri Marinó

Tómas Ó. Guðjónsson, líffræðingur og forstöðumaður Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, vill að lög um dýravernd verði lagfærð til þess að leyfilegt verði að sleppa dýrum sem alast upp hjá mönnum. Hann segir engan faglegan ágreining ríkja um að selkópar eigi vissulega afkomu von þegar þeim sé sleppt.

Ein sorglegasta saga sumarsins er sú af selkópnum í Fjölskyldugarðinum sem flúði úr garðinum og kom sér með lækjum í Laugardalnum á tjaldstæðið þar sem hann náðist. Ferð kópsins vakti mikla athygli en ekki síður fréttir sem bárust daginn eftir að hann hefði verið aflífaður.

Í sjónvarpsfréttinni hér að neðan má sjá leið kópsins úr garðinum og á tjaldstæðið.



Hilmar Össurarson, settur yfirdýrahirðir, segir að kópnum hafi verið lógað líkt og gert sé við alla þá kópa sem ekki eigi að halda. „Á haustin og seinni part sumars er öllum kópum lógað vegna plássleysis,“ segir Hilmar.

Enginn faglegur ágreiningur

Tómas mætti á fund Íþrótta- og tómstundaráðs fyrir helgi og upplýsti stjórnarmenn um „kópamálið“. Lagði hann fram beiðni til Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis um fyrrnefnda breytingu á lögum um dýravernd svo hægt verði að veita undanþágu frá 23. grein laganna. Í henni er kveðið á um að ekki sé leyfilegt að sleppa dýrum sem alast upp hjá mönnum. 

ÍTR tók undir beiðni Tómasar og vísað er til þess að enginn faglegur ágreiningur ríki um að selkópar eigi vissulega afkomu von þegar þeim er sleppt.

Töluverð reiði braust út meðal fólks þegar fréttist af því að kópurinn hefði verið aflífaður. Var meðal annars stofnaður Facebook-hópur sem vildu þyrma lífi hans. 

Boltinn er því hjá ráðuneytinu en sem gera þarf breytingar á lögum um dýravernd til þess að garðurinn eigi þess kost að sleppa kópum og öðrum dýrum út í náttúruna.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×