Innlent

Máli Snædísar ekki áfrýjað: Fullnaðarsigur í gífurlega fordæmisgefandi máli

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Snædís Rán ásamt móður sinni, túlkum og aðstoðarkonu í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Snædís Rán ásamt móður sinni, túlkum og aðstoðarkonu í Héraðsdómi Reykjavíkur. vísir/Stefán
Íslenska ríkið áfrýjaði ekki niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Snædísar Ránar Hjartardóttur sem stefndi stjórnvöldum fyrr á þessu ári fyrir að veita henni ekki þá túlkaþjónustu sem hún þarf. 

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu þann 30. júní síðastliðinn að íslenska ríkið hafi brotið gegn Snædísi þegar henni var gert að greiða fyrir túlkaþjónustu úr eigin vasa og er dómurinn talinn staðfesta skýlausan rétt heyrnalausra til túlkunar.

Ljóst er að íslenska ríkið mun ekki áfrýja niðurstöðu dómsins til Hæstaréttar úr þessu enda rann áfrýjunarfresturinn út í gær.



Málinu lokið með fullnaðarsigri

Páll Rúnar Kristjánsson, lögmaður Snædísar, segir því ekki um annað að ræða en að fullnaðarsigur hafi fengist í málinu. Þessi niðurstaða hafi þó ekki komið honum mikið á óvart enda hafi menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, lýst því yfir að hann myndi beita sér fyrir því að málinu yrði ekki áfrýjað til æðra dómstigs.

Páll Rúnar segir að boltinn sé nú hjá stjórnvöldum enda hafi úrskurður héraðsdóms gífurlegt fordæmisgildi fyrir íslenska ríkið. „Tilfelli Snædísar er ekkert jaðartilfelli. Hann hefur í för með sér að fólk eigi að fá þessu þjónustu og það endurgjaldslaust. Sömuleiðis hafa þeir sem nú þegar hafa greitt fyrir slíka þjónustu endurkröfurétt og þeim sem hefur verið neitað um þjónustuna eiga miskabótarétt,“ segir Páll.

„Nú hlýtur hið faglega og vandaða stjórnvald að hafa frumkvæði að því að bæta fólki það tjón sem það hefur orðið fyrir,“ segir hann ennfremur. Mannréttindi eigi ekki að stranda á fjárlögum og ríkið eigi svo sannarlega ekki að þurfa að bíða eftir því að hver einn og einasti stefni því til að fá rétti sínum framfylgt.


Tengdar fréttir

Greiðir himinháan kostnað vegna túlkaþjónustu úr eigin vasa

Snædís Rán Hjartardóttir sem stefndi Sam­skiptamiðstöð heyrn­ar­lausra og heyrn­ar­skertra, ís­lenska rík­inu og Reykja­vík­ur­borg útaf synjunar á túlkaþjónustu greiðir kostnað vegna samskipta sjálf. Þriggja klukkutíma fundur kostaði hana fimmtíu þúsund krónur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×