Innlent

Segir kannabisreykingar hafa læknað sig af andlegum kvillum sínum

vísir/AFp
Ung íslensk kona þakkar daglegum kannabisreykingum því hún geti nú lifað lífinu lifandi, gengið í skóla og rekið heimili – eitthvað sem hún hafi aldrei getað áður en kannabis kom til sögunnar.

Konan, sem ekki vill láta nafn síns getið, segir í samtali við Vísi að áður en hún hafi byrjað að reykja kannabis hafi hún reglulega verið inni á geðdeild og tekið inn mikið magn af geðlyfjum. 

Fór gegn læknisráði

„Ég kynntist kannabisi og prufaði að nota það samhliða lyfjunum en fann að það gerði mér ekki gott. Ég gerði þá það sem ég geri best, að synda beint á móti straumnum. Ég heimtaði að læknirinn myndi trappa mig niður á lyfjum því ekki voru lyfin að láta mér líða neitt betur og án samráðs við lækni fór ég að nota kannabis í staðinn.

Hún segir lítið mál að verða sér úti um efnið á Íslandi og hafi hún notað upp undir eitt og hálft gramm af kannabis á dag. Það hafi alfarið eftir því úr hvaða áföllum hún hafi verið að vinna.

Hún segir að innan tveggja ára hafi líðan hennar verið komin í topp stand. Rekstur heimilsins hafi orðið sómasamlegur og hún hafi alveg verið hætt að fara inn á geðdeildir.

„Læknirinn spurði mig hvað í fjandanum ég hefði gert þar sem ég liti svo vel út og hamingjan hreinlega skein af mér. Þegar ég sagði henni að ég væri búin að vera nota kannabis þá ætlaði hún ekki að trúa mér. Þegar ég sagði henni að ég hefði reykt áður en ég mætti í viðtal þá gapti hún bara því ég leit alls ekki út fyrir að vera undir áhrifum,“ segir konan og bætir við:  „Eftir daglegar reykingar í rúmlega tvö ár þá hætti ég í hálft ár þar sem kannabisið var búið að þjóna sínum tilgangi, það er að lækna mig af andlegum kvillum mínum.“ 



Átti erfitt með að vinna úr áföllum

Hún segir að þessa kvilla megi rekja til áfalla á uppvaxtarárum hennar sem hún hafi fyrst geta unnið skilmerkilega úr undir áhrifum kannabis.

„Þegar ég reyndi að vinna úr þessum hlutum áður en efnið kom til sögunnar þá endaði ég undantekningarlaust í niðursveiflu því það var einfaldlega of erfitt að einungis hugsa um það sem maður hafði lent í, og hvað þá að reyna vinna úr því. kannabis róaði mig nógu mikið niður til að ég gæti hugsað og unnið úr hlutunum án þess að fara á taugum,“ segir konan.

Hún hafi í kjölfarið byrjað aftur í skóla og vinni nú að því að klára stúdentspróf, eitthvað sem hún segist ekki hafa geta gert áður en hún byrjaði að reykja. Þá sé hún byrjuð að reka heimili- „ hlúi að gæludýrum og lifi lífinu lifandi.“

Hún segist einungis reykja til hátíðarbrigða í dag. Kannabis fari betur í hana heldur en áfengi og notar hún það til að lyfta sér upp og gera sér glaðan dag.

Hún undirstrikar að þó að kannabis hafi virkað fyrir þurfi það alls ekki að eiga við um alla – „enda er líklega ekkert efni í heiminum sem virkar fyrir hvert einasta mannsbarn.“


Tengdar fréttir

Vill að yfirvöld taki kannabis til skoðunar

Kristín Ingólfsdóttir, lyfjafræðiprófessor og rektor Háskóla Íslands, telur að heilbrigðisyfirvöld eigi að skoða í fullri alvöru að leyfa kannabis í lækningaskyni.

Heilinn sjálfur breytist með neyslu kannabisefna

Tvær rannsóknir sem skoðuðu heilastarfsemi og langtíma afleiðingar kannabisneyslu birtust í virtum fagtímaritum í apríl á þessu ári. Er kannabis ávanabindandi? Er það öruggt? Skoðum niðurstöðurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×