Innlent

Einn ákærður fyrir að nauðga stúlkunni í kjölfar hópnauðgunar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Stúlkan kærði fimmmenningana þremur dögum eftir meinta hópnauðgun.
Stúlkan kærði fimmmenningana þremur dögum eftir meinta hópnauðgun. vísir/daníel
Piltunum fimm, sem ákærðir eru af ríkissaksóknara fyrir nauðgun í samkvæmi í Breiðholti í maí í fyrra, er öllum gefið að sök að hafa haft margs konar kynferðismök við stúlkuna sem kærði þá til lögreglu. Hin meinta hópnauðgun átti sér stað aðfaranótt sunnudagsins 4. maí og kærði stúlkan piltana þremur dögum síðar.

Piltarnir eru á aldrinum 18-21 árs. Á stundum höfðu fleiri en einn af þeim kynferðismök við stúlkuna á sama tíma, með því að beita hana ofbeldi og annars konar ólögmætri nauðung, eins og segir í ákæru.

Piltunum er gefið að sök að hafa beitt stúlkuna harðræði, lagst meðal annars yfir höfuð hennar og spennt ól um lærið á henni.

Sjá einnig: Móðir stúlkunnar fer fram á tíu milljónir í bætur

Fjórir þeirra eru sakaðir um að hafa haft kynferðismök við stúlkuna gegn vilja hennar en allir um að brjóta gegn henni kynferðislega á einn eða annan hátt. Piltarnir eru sakaðir um að hafa nýtt sér yfirburðastöðu sína og aðstöðumun gagnvart stúlkunni sem var ein með þeim, og lömuð af hræðslu, í lokuðu, myrku herbergi.

Þetta átti sér allt stað inn í svefnherbergi en síðan á einn piltanna að hafa leitt stúlkuna inn á baðherbergi og brotið aftur kynferðislega gegn henni eins og segir í ákæru.

Þá er einn piltanna ákærður fyrir að hafa tekið hluta af kynferðismökunum upp á síma og síðan sýnt nokkrum samnemendum stúlkunnar myndbandið í matsal Fjölbrautaskólans í Breiðholti mánudaginn 5. maí.

Brot piltanna fimm varða við 1. málsgrein 194. gr. almennra hegingarlaga og 3. málsgrein barnaverndarlaga. Þá varðar brot þess sem tók athæfið upp á myndband og sýndi við 209. grein almennra hegningarlaga og 3. málsgrein 99. gr. barnaverndarlaga.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×