Íslenski boltinn

Kristján: Hegðun FH-inga til skammar | Máni fékk rautt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristján og Máni á hliðarlínunni í kvöld..
Kristján og Máni á hliðarlínunni í kvöld.. vísir/ernir
Kristján Guðmundsson segir að hans menn í Keflavík hafi verið ósáttir við hegðun FH-inga eftir að varnarmaðurinn Insa Fransisco fékk rautt spjald fyrir brot á Böðvari Böðvarssyni.

„Við vorum kannski ekki beint ósáttir við rauða spjaldið,“ sagði Kristján sem var dágóða stund í búningsklefa Keflavíkur áður en hann kom út og veitti fjölmiðlamönnum viðtal.

„Ég hef lúmskan grun um að rauða spjaldið hafi verið réttur dómur. Við erum hins vegar nokkuð ósáttir við framkvæmdina á leiknum og það sem gerist eftir brotið,“ sagði hann en stuttu eftir að Insa fékk rautt var Þorkeli Mána Péturssyni, aðstoðarþjálfara Keflavíkur, vikið upp í stúku.

Kristján segir að bæði leikmenn og starfsmenn vallarins hafi gert aðsúg að leikmönnum Keflavíkur. „Það er til skammar,“ segir hann.

Þjálfarinn segist ánægður með frammistöðu sinna manna í kvöld. „Við gáfum FH leik í 70 mínútur. Við fengum á okkur nokkuð mörg færi en sköpuðum okkur færi líka.“

„Við vissum að til þess að fá eitthvað úr leiknum yrðum við alltaf að skora, enda eru þeir það sterkir fram á við. Það var alveg klárt að það yrði erfitt að halda aftur af þeim þó svo að okkur tókst það í 70 mínútur.“

Kristján segist sjá miklar framfarir á leik sinna manna í kvöld eftir tapleikinn gegn Víkingi í fyrstu umferð.

„Þetta var mörgum skrefum betra en í fyrsta leiknum. Það vantar enn Hólmar Örn og það verður gott að fá hann inn. Við fengum útlendingana líka of seint inn og það er að gera okkur erfitt fyrir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×