Erlent

Sagðir hafa njósnað um viðræður

Samúel Karl Ólason skrifar
Benjamin Netanyahu og Barack Obama.
Benjamin Netanyahu og Barack Obama. Vísir/AFP
Ísraelsmenn eru sagðir hafa njósnað um kjarnorkuviðræður Bandaríkjanna og Íran. Þær upplýsingar sem þeir öfluðu munu þeir hafa notað til að vinna gegn mögulegu samkomulagi innan Bandaríkjanna, með þrýstihópum og öðrum leiðum.

Wall Street Journal hefur eftir embættismönnum frá Bandaríkjunum að njósnirnar hafi hafist í fyrra.

Ísraelar telja að Bandaríkin muni láta of mikið eftir í viðræðunum við Írani um kjarnorkuuppbyggingu þeirra. Það segja þeir dragi úr öryggi Ísrael. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, fór til að mynda til Bandaríkjanna á dögunum og hélt ræðu í þinginu þar til að mótmæla viðræðunum. Það gerði hann í óþökk Barack Obama, forseta Bandaríkjanna.

Í kjölfar þess sendu 47 repúblikanar á öldungadeild þingsins bréf til yfirvalda í Íran, þar sem þeir sögðu að sá forseti sem tæki við af Obama myndi ekki standa við samkomulag við Íran.

Samkvæmt gögnum sem WSJ komst yfir hafa yfirvöld í Bandaríkjunum lengi vitað af því að Ísrael njósni um Bandaríkin, sem njósna einnig gegn Ísrael. Bandaríkin komust yfir sendingu gagna á milli embættismanna í Ísrael, sem innihélt upplýsingar sem Bandaríkjamenn segja að þeir hefðu eingöngu getað fengið í gegnum njósnir.

Á vef Guardian kemur fram að Ísraelar segjast ekki hafa njósnað um viðræðurnar. Þeir neituðu hins vegar ekki að þeir hefðu komið höndum yfir upplýsingar um viðræðurnar. Utanríkisráðherra Ísrael segir að þeir njósni ekki um Bandaríkin.

Ljóst er að samband ríkjanna hefur kulnað á undanförnum misserum. Sérfræðingar sem Guardian ræddi við segja að það að gögnum úr Hvíta húsinu hafi verið lekið til fjölmiðla sé út af fyrir sig dæmi um versnandi samband ríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×