Fótbolti

Löw mun þjálfara heimsmeistarana fram yfir HM 2018

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þjálfarateymi Joachim Löw saman með HM-bikarinn eftir að liðið snéri aftur til Þýskalands.
Þjálfarateymi Joachim Löw saman með HM-bikarinn eftir að liðið snéri aftur til Þýskalands. Vísir/Getty
Joachim Löw hefur framlengt samning sinn við þýska knattspyrnusambandið um tvö ár og mun því stýra heimsmeisturunum á HM í Rússlandi 2018.

Löw tók við þýska landsliðinu af Jürgen Klinsmann eftir HM í Þýskalandi og gerði liðið að heimsmesturum í Brasilíu síðasta sumar eftir 1-0 sigur á Argentínu í úrslitaleiknum.

Aðstoðarmaður hans Thomas Schneider og markmannsþjálfarinn Andreas Köpke verða líka áfram í þjálfarateymi hans. Oliver Bierhoff, framkvæmdastjóri liðsins, fékk þó lengstu framlenginguna eða til ársins 2020.

„Ég hef oft sagt það að það er mjög krefjandi og áhugavert verkefni að fylgja eftir góðum árangri liðsins í Brasilíu," sagði Joachim Löw.

„Þetta unga lið okkar er ekki fullmótað og það sama má segja um okkar leikmenn," sagði Löw en næst á dagskránni er að vinna Evrópumeistaratitilinn í Frakklandi sumarið 2016.

Þýska landsliðið hefur náð í verðlaun á öllum fjórum stórmótunum undir stjórn Joachim Löw, vann HM 2014, varð í 2. sæti á EM 2008 og í þriðja sæti á HM 2010 og EM 2012.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×