Erlent

Fleiri dularfullir gígar finnast í Síberíu

Atli Ísleifsson skrifar
Þessi gígur fannst í Síberíu á síðasta ári.
Þessi gígur fannst í Síberíu á síðasta ári. Mynd/Siberian Times

Rússneskir vísindamenn hafa fundið fjóra gíga til viðbótar við þá þrjá dularfullu gíga sem fundust í Síberíu á síðasta ári. „Þetta verður að rannsaka betur þegar í stað, svo að við getum komið í veg fyrir stórslys í framtíðinni,“ segir Vasili Bogojavlensky, yfirmaður rannsóknarteymis sem hefur leitað skýringa á málinu.

Í júlí á síðasta ári vöktu myndir af þremur gígum á Jamalskaga í norðurvesturhluta Síberíu gríðarlega athygli, en þá var sagt að þeir hafi myndast á síðustu tveimur árum.

Hreindýrahirðar á svæðinu segja gígana hafa myndast eftir „sprengingar sem hafi fleytt mold og ryki í loft upp“.

Allt frá því að greint var frá tilvist gíganna hefur sérstakt rannsóknarteymi undir stjórn Bogojavlensky rannsakað svæðið í leit að fleiri sambærilegum gígum.

„Nú erum við búin að finna sjö slíka gíga. Fimm þeirra eru á Jamalskaga, einn í sjálfstjórnarhéraðinu Jamal og einn á Krasnoyarsvæðinu,“ segir Bogojavlensky í samtali við Siberian Times. Hann telur mögulegt að tugir slíkra gíga eigi enn eftir að finnast.

Vísindamenn segja mögulegt að sprengingarnar megi rekja til metangass sem hafi losnað í kjölfar hlýnandi loftslags.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.