Erlent

Amedy Coulibaly segist vera á vegum Íslamska ríkisins

Samúel Karl Ólason skrifar
Amedy Coulibaly.
Amedy Coulibaly.
Myndband af manninum Amedy Coulibaly hefur verið birt á netinu þar sem hann talar í myndavél fyrir framan fána Íslamska ríkisins. Í myndbandinu segir Coulibaly að hann hafi verið meðlimur Íslamska ríkisins. Þá ver hann árásir sínar og bræðranna Cherif og Said Kouachi.

Áður en hann hefur mál sitt birtist texti í myndbandinu þar sem staðfest er að hann hafi myrt lögreglukonu í París á fimmtudagsmorgun. Hann tók fjölda manns í gíslingu í matvöruverslun gyðingar í París degi seinna, en fjórir gíslanna létu lífið. Coulibaly var veginn af lögreglu í versluninni.

AP fréttaveitan segir að búið sé að staðfesta að um Coulibaly sé að ræða.

Hann segir einnig að hann og bræðurnir hafi skipt liði til að hámarka skaðann.

„Það sem við erum að gera er algerlega lögmætt, miðað við það sem þeir eru að gera,“ segir Coulibaly í myndbandinu. „Þú getur ekki gert árás og ekki búist við hefndum og svo leikið fórnarlamb, eins og þú skiljir ekki hvað sé að gerast.“

Í lok myndbandsins kallar Coulibaly eftir frekari árásum á Frakka.

Lögregla leitar nú að ekkju hans, en talið er að hún hafi tekið þátt í morði Coulibaly á lögreglukonunni. Starfsmaður Tyrknesku leyniþjónustunnar segir AP að talið sé að hún hafi ferðast til tyrkneskar borgar nærri landamærum Sýrlands og síðan sé ekkert vitað um ferðir hennar.

Uppfært

Youtube hefur fjarlægt myndböndin sem upprunalega fylgdu fréttinni, en ný myndbönd hafa verið tengd henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×