Erlent

Boumeddiene sést í öryggismyndavél í Tyrklandi

Atli Ísleifsson skrifar
Boumeddiene kom til Tyrklands í fylgd manns að nafni Mehdi Sabri Belhouchine.
Boumeddiene kom til Tyrklands í fylgd manns að nafni Mehdi Sabri Belhouchine. Vísir/AFP
Nýjar myndir úr öryggismyndavél á flugvelli í tyrknesku borginni Istanbul sýna Hayat Boumeddiene fara í gegnum vegabréfsskoðun í fylgd manns þann 2. janúar síðastliðinn. Talið er að Boumeddiene sé nú að finna í Sýrlandi.

Boumeddiene var unnusta Amedy Coulibaly, 32 ára Frakka, sem skaut fjóra gísla til bana í matvöruverslun í austurhluta Parísar á föstudaginn, auk franskrar lögreglukonu á fimmtudaginn.

Utanríkisráðherra Tyrklands segir Boumeddiene hafa komið til Tyrklands um Sabiha Gokcen flugvöllinn þann 2. janúar frá Madríd, áður en hún hélt för sinni áfram til Sýrlands sex dögum síðar.

Í frétt BBC kemur fram að fulltrúar tyrkneskra yfirvalda segi hana hafa komið inn í landið með manni að nafni Mehdi Sabri Belhouchine, sem er af norður-afrískum uppruna, og að hann hafi ekki áður verið undir eftirliti. Talið er að hann hafi haldið til Sýrlands ásamt Boumeddiene.

Lögregla í Frakklandi hefur leitað Boumeddiene eftir að Coulibaly skaut lögreglukonu til bana í suðurhluta borgarinnar á fimmtudaginn, en hann er talinn hafa verið samverkamaður Kouachi-bræðranna Chérif og Said, sem skutu tólf manns til bana á ritstjórnarskrifstofum Charlie Hebdo á þriðjudaginn.

Boumeddiene er talin tengjast málunum þó að hún hafi yfirgefið landið nokkru fyrir árásirnar.

Hayat Boumeddiene var unnusta Amedy Coulibaly.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×