Erlent

Þrjár milljónir skopmynda af Múhameð á morgun

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Svona er talið að blaðið muni líta út.
Svona er talið að blaðið muni líta út.
Næsta tölublað tímaritsins Charlie Hebdo verður gefið út í þremur milljón eintökum. Tímaritið kemur út á morgun en það er í fyrsta sinn síðan blaðið kemur út frá því að árásin var gerð á skrifstofur blaðsins með þeim afleiðingum að tólf biðu bana. Blaðið verður til minningar þeirra sem létust og í því verða myndir af Múhameð spámanni.

Tímaritin hafa hingað til verið gefin út í sextíu þúsund eintökum og vanalega hefur helmingur þeirra selst. Í gærdag var greint frá því að blaðið yrði prentað út í milljón eintökum en í gærkvöldi var ákvörðun tekin um að auka fjöldann. Búist er við að blöðin muni seljast upp.

Hugmyndir eru uppi um hvernig blaðið muni líta út og út frá því spunnist miklar umræður. Twitter-liðar hafa þó birt mynd af tölublaði sem þeir segja forsíðu næsta Charlie Hebdo. Fyrirsögn blaðsins er á þá leið að allt sé fyrirgefið.

Franska þingið kemur saman í dag í fyrsta sinn frá árásunum mannskæðu og í dag verða fjórir gyðingar jarðaðir, en þeir voru allir myrtir í matvörubúð daginn eftir ódæðið á ritstjórnarskrifstofunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×