Enski boltinn

Af hverju var United-maður að setja inn mynd af Kókaín-kóngi Kólumbíu?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcos Rojo með Kólumbíumanninum Radamel Falcao.
Marcos Rojo með Kólumbíumanninum Radamel Falcao. Vísir/Getty
Marcos Rojo, varnarmaður Manchester United, gerði marga öskureiða á félagsmiðlunum þegar hann setti mynd af kólumbíska eiturlyfjabaróninum Pablo Escobar á Instagram-síðu sína.

Rojo er Argentínumaður og á sínu fyrsta tímabili hjá Manchester United en hann er 24 ára gamall varnarmaður sem liðið keypti frá Sporting CP í Portúgal.

Á laugardaginn tók Marcos Rojo sig til, fann mynd af Pablo Escobar og setti undir eftirfarandi ummæli frá Kókaín-kóngi Kólumbíu: „Aðeins þeir sem urðu svangir með mér og stóðu með mér í gegnum slæmu tímana fá að sitja við mitt borð."

Marcos Rojo er þessa dagana að ganga í gegnum mótlæti og meiðsli en hann hefur ekkert spilað síðan í leik á móti Southampton í byrjun desember.

Pablo Escobar var maðurinn á bak við þúsundir morða í Kólumbíu á níunda og tíunda áratugnum en hann var skotinn til bana af kólumbísku lögreglunni árið 1993. Pablo Escobar hagnaðist gríðarlega á eiturlyfjaviðskiptum á sínum tíma.

Tengsl Pablo Escobar við fótboltann voru sterk og dældi hann sem dæmi peningum inn í fótboltalið og í vasa fótboltamanna í heimalandi sínu. Góð heimildarmynd um tengsl Pablo Escobar og fótboltans er ESPN-myndin The Two Escobars.

Marcos Rojo hefur síðan tekið myndin út af Instagram-síðu sinni.

Myndin og ummælin á Instagram-síðu Marcos Rojo.
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×