Enski boltinn

Mourinho í fjölmiðla-fýlu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea.
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, virðist vera kominn í fjölmiðlaverkfall vegna þess hversu ósáttur hann er við kæru sem hann fékk á sig frá enska knattspyrnusambandinu.

Mourinho mótmælir ákærunni með því að skrópa á blaðamannafund í dag þar sem knattspyrnustjórinn átti að ræða leik Chelsea á móti Newcastle í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Margir hefðu viljað heyra í Mourinho fyrir Newcastle-leikinn enda var Newcastle fyrr í vetur fyrsta liðið til að vinna Chelsea á tímabilinu. Mourinho er hinsvegar kominn í fjölmiðla-fýlu og kennir aganefnd enska knattspyrnusambandsins um.

Aganefnd enska knattspyrnusambandsins var ósátt við þá yfirlýsingu Jose Mourinho að það væri herferð, „campaign", í gangi gegn Chelsea-liðinu.

Mourinho talaði um herferðina gegn sér og sínum eftir jafnteflisleik á móti Southampton en hann var mjög reiður út í þá ákvörðun að gefa Cesc Fabregas gula spjaldið fyrir leikaraskap í stað þess að dæma augljósa vítaspyrnu.

Chelsea er í efsta sæti deildarinnar ásamt Manchester City en liðin eru með jafnmörg stig (46) og nákvæmlega sömu markatölu (44-19). City mætir Everton á útivelli á sama tíma og Chelsea tekur á móti Newcastle United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×