Líkt og Vísir greindi frá í morgun hafa systurnar, þær Malín og Hlín, játað að hafa sent Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra bréf þar þær reyndu að kúga út úr honum fé.

Ljóst er að um umfangsmikla lögregluaðgerð var að ræða en Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við Vísi fyrr í dag undirbúning lögreglu hafa hafist um leið og tilkynning barst til hennar um málið.
Hann sagði svipað mál áður hafa komið inn á borð til lögreglu og er það Nóa Siríusar-málið svokallaða.
Málið átti sér stað í janúar árið 2013 en þá barst umslag inn um lúguna á heimili Finns Geirssonar, forstjóra Nóa Síríus.
Í umslaginu var bréf og tvö súkkulaðistykki framleidd af Nóa Síríusi, eitt Pipp með myntufyllingu og annað með karamellu, sem bremsuvökva hafði verið sprautað í. Bréfið innihélt hótun þess efnis að ef Nói Síríus hf. greiddi mönnum ekki tíu milljónir króna færu samskonar súkkulaðistykki, sem innihéldu vökva sem gæti reynst banvænn, í umferð í tugatali, auk annarra framleiðsluvara fyrirtækisins sem sprautuð yrðu með sama vökva.
Mennirnir fylgdu hótununum eftir með símtölum til Finns en í einu þeirra gáfu þeir fyrirmæli um afhendingu fjárins. Lögregla sat svo fyrir mönnum í Hamrahlíð eftir að þeir höfðu sótt pakkningu í bíl fyrir utan Hús verslunarinnar sem þeir töldu að innihéldi tíu milljónir króna í reiðufé.