Innlent

Hótuðu að tengja Sigmund Davíð við kaup Björns Inga á DV

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Malín og Hlín hafa játað tilraun til fjárkúgunar á hendur forsætisráðherra en þær vildu milljónir fyrir að upplýsa ekki um meint tengsl Sigmundar við Björn Inga.
Malín og Hlín hafa játað tilraun til fjárkúgunar á hendur forsætisráðherra en þær vildu milljónir fyrir að upplýsa ekki um meint tengsl Sigmundar við Björn Inga. Vísir/Valli
Upplýsingarnar sem systurnar Malín Brand og Hlín Einarsdóttir hótuðu að gera opinberar snúast um meint fjárhagsleg tengsl Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Björns Inga Hrafnssonar fjölmiðlamanns. Samkvæmt heimildum fréttastofu snúast upplýsingarnar um kaup Björns Inga á DV.

Björn Ingi og Hlín voru í sambandi frá árinu 2011 þar til síðla árs 2014. Tilkynnt var um kaup Björns Inga á DV í nóvember í fyrra en fyrir átti Björn Ingi Vefpressuna sem rekur meðal annars Pressuna, Eyjuna og Bleikt.is. Hlín var lengi ritstjóri Bleikt.

Sjá einnig: Systurnar Malín og Hlín handteknar

Samkvæmt heimildum fréttastofu sendu þær bréf til Sigmundar þar sem þess var krafist að hann myndi reiða fram nokkrar milljónir króna ella yrðu upplýsingarnar gerðar opinberar. Málið var umsvifalaust tilkynnt lögreglu sem réðist í umfangsmiklar aðgerðir á föstudag sem leiddu til handtöku systranna.

Lögreglan vildi framan af degi ekkert tjá sig um málið við Vísi en sendi á tólfta tímanum frá sér tilkynningu. Þar segir að systurnar hafi verið handteknar sunnan við Vallahverfi í Hafnarfirði. Þær hafi játað að hafa sent bréfið en í því var þess krafist að forsætisráðherra myndi koma milljónum króna fyrir á tilteknum stað í hrauninu. Þar voru þær svo handteknar.

Sjá einnig: Játa að hafa reynt að kúga fé úr forsætisráðherra

Friðrik Smári Björgvinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, vildi ekki upplýsa um hve margir komu að aðgerð lögreglu á föstudaginn. Slatti var orðið sem Friðrik notaði í samtali við fréttastofu en fréttastofa greindi frá því í morgun að um umfangsmikla aðgerð hefði verið að ræða.

Björn Ingi vildi ekki tjá sig um málið í samtali við Vísi.

Click here for an English version


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.