Arturo Vidal, leikmaður Juventus, skoraði tvívegis þegar gestgjafar Síle mættu Mexíkó í Suður-Ameríkukeppninni í gær. Það dugði þó ekki til því leiknum lyktaði með 3-3 jafntefli.
Mexíkó komst tvívegis yfir í leiknum. Vicente Vuoso kom liðinu á bragðið með marki eftir skyndisókn um miðjan hálfleikinn en aðeins mínútu síðar var Vidal búinn að jafna fyrir Síle með skallamarki.
Aftur komst Mexíkó yfir en Raul Jimenez skoraði með skalla á 29. mínútu en rétt fyrir lok fyrri hálfleiks jafnaði Eduardo Vargas með enn einu skallamarkinu.
Síle fékk svo vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik er Gerardo Flores var dæmdur brotlegur eftir að Vidal féll í vítateig Mexíkó. Vidal tók sjálfur spyrnuna og skoraði af öryggi.
Mexíkó lét þó ekki segjast og uppskar jöfnunarmark á 66. mínútu er Vuoso skoraði öðru sinni í leiknum, í þetta sinn eftir sendingu Adrian Aldrete.
Heimamenn voru þó ekki ánægðir með dómgæsluna í síðari hálfleik þegar tvö mörk voru dæmd af liðinu. Fyrst virtist Jorge Valdivia hafa skorað en Vidal var þá dæmdur rangstæður. Arsenal-maðurinn Alexis Sanchez skoraði svo af stuttu færi eftir fyrirgjöf Mauricio Isla en var líka dæmdur rangstæður. Báðar ákvarðanir þóttu umdeildar.
Eftir jafnteflið eru Síle og Bólivía efst og jöfn í A-riðli með fjögur stig hvort að loknum tveimur leikjum. Mexíkó eru með tvö stig en Ekvador ekkert.
Tvö mörk frá Vidal dugðu ekki | Myndband
Tengdar fréttir

Frábær fyrri hálfleikur tryggði Bólivíu stigin þrjú
Bólivía tyllti sér á topp A-riðils í Suður-Ameríkukeppninni með nokkuð óvæntum 3-2 sigri á Ekvador í kvöld.