Erlent

Sameinast um áætlun gegn ebólufaraldri

Atli Ísleifsson skrifar
Ebólaveiran hefur þegar dregið 467 manns til dauða í Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne síðustu vikur og mánuði.
Ebólaveiran hefur þegar dregið 467 manns til dauða í Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne síðustu vikur og mánuði. Vísir/AFP
Heilbrigðisráðherrar ellefu ríkja í vesturhluta Afríku hafa komið sér saman um sameiginlega áætlun gegn ebólufaraldrinum sem nú geisar í heimshlutanum. Ráðherrarnir komu saman á neyðarfundi í Gana í gær þar sem þeir hétu því að vinna í sameiningu gegn útbreiðslu veirunnar. Á vef BBC segir að útbreiðsla hafi aldrei verið meiri þar sem vitað er um 759 tilfelli í Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne og hafa 467 þeirra leitt smitaða til dauða.

 

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) boðaði til fundarins, en stofnunin mun næstu daga opna samhæfingarmiðstöð í Gíneu til að vinna gegn útbreiðslunni. Keiji Fukuda, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá WHO, segir það ómögulegt að svara hvernig útbreiðslan mun nákvæmlega þróast. Hann vonast til að ekki líði meira en nokkrir mánuðir áður en tök nást á útbreiðslunni. „Ég vonast virkilega til að sjá viðsnúning á næstu vikum og að skráðum tilfellum fækki.“

 

Sýking af völdum ebólu hefur enn sem komið er verið bundin við Afríku. Sjúkdómurinn skaut nokkrum sinnum upp kollinum á áttunda áratug síðustu aldar en lét svo ekki á sér kræla í rúman áratug. Á Vísindavefnum segir að veiran geti skemmt mikilvæg líffæri, einkum lifur og nýru, sem leiði til blæðinga frá líkamsopum og oft skemmdum á innri vefjum. Blæðingarnar geta svo leitt til að sjúkdómurinn þróist yfir í lost, öndunarstopp og síðan dauða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×