Innlent

Þrír karlmenn, álfkonubúningar og geirvörtuklemmur

VISIR/GETTY
Þrír karlmenn hafa verið ákærðir fyrir innbrot í verslunina Rómantík.is á Hverfisgötu um miðjan febrúar á þessu ári.

Karlmennirnir eru á aldrinum 21 til 31 árs og er gefið að sök að hafa farið ránshendi um búðina, sem sérhæfir sig í sölu á hjálpartækjum ástarlífsins, og haft með sér varning að verðmæti 96. 865 króna.



Stálu þeir meðal annars tveimur pökkum af tungulokkum, einum pakka af geirvörtuklemmum, einu eggi með titrara, tveimur álfkonubúningum, tveimur slökkviliðsbúningum og einni gervidúkku.



Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakakostnaðar.



Ákæruvaldið gerir ekki kröfu um að hin lostafullu leiktæki verði gerð upptæk, eins og venja er í málum sem þessum, en draga má þá ályktun að innsigli þeirra hafi verið rofið og því ekki verið líkleg til endursölu.

Ekki er vitað að svo stöddu hvernig mennirnir höfðu hugsað að nýta sér ránsfenginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×