Innlent

Frá Kópavogi til Rússlands í verkfallinu og sóttu gull

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Kórinn fagnaði sigrinum í mótslok.
Kórinn fagnaði sigrinum í mótslok.
„Við erum alveg ótrúlega hamingjusamar,“ segir Þórunn Björnsdóttir kórstjóri  sem stýrði Skólakórs Kársness til sigurs í alþjóðlegu kóramóti í Rússlandi fyrr í dag.

Mótið var stórt – þrjátíu og átta kórar spreyttu sig og bar sá íslenski sigur úr býtum. „Það voru sex kórar sem komust í úrslit og að þeim loknum var okkur afhent gullið. Við erum alveg í skýjunum,“ útskýrir Þórunn.

Stúlkurnar í kórnum eru allar á menntaskólaaldri og fóru því til Rússlands í kennaraverkfallinu og lönduðu gulli. „Já, nú þurfa þær bara að drífa sig heim og fara beint í skólann,“ segir Þórunn glöð í bragði.

Stúlkurnar sungu íslenska og Norræna tónlist á mótinu, sem fór greinilega vel í dómarana.

Þær fengu gull í flokki unglingakóra og rússneskur barnakór fékk sérstök heiðursverðlaun á mótinu.

Þórunn hefur farið víða um heim á kóramót og er reynslubolti í faginu. „Þetta er örugglega tuttugasta og fimmta ferðin mín. Ég hef ekki farið á margar svona keppnir, yfirleitt eru þetta ekki keppnir. En þetta var mjög gaman. Við sungum í fallegustu höll sem ég hef séð og það hefur verið ótrúlega gaman að koma hingað til Pétursborgar,“ útskýrir hún.

Þórunn hefur verið kórstjóri Skólakórs Kársness í tæplega fjörutíu ár. Söngvarar á borð við Emilíönu Torrini og Gissur Pál Gissurarson hafa sungið í kórnum.

Þórunn kveðst ákaflega ánægð með þessa ferð. „Já, þetta er búin að vera alveg æðisleg lífsreynsla fyrir stelpurnar.“

Hér að neðan má sjá myndband af kórnum syngja í Bandaríkjunum fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×