Erlent

Grískur hryðjuverkamaður flúinn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kristodúlos Xiros les upp yfirlýsingu, með myndir af byltingarhetjum sínum í bakgrunni.
Kristodúlos Xiros les upp yfirlýsingu, með myndir af byltingarhetjum sínum í bakgrunni. Vísir/AP
Gríski hryðjuverkamðurinn Kristodúlos Xiros er sloppinn úr fangelsi. Hann hótar að grípa til vopna á ný og berjast gegn stjórnvöldum, dómstólum og fjölmiðlum í Grikklandi.

Kristodúlos var liðsmaður samtaka sem nefndu sig 17. nóvember og stóðu fyrir morðum og mannránum frá því á miðjum áttunda áratug síðustu aldar og fram til aldamóta.

Xiros hlaut fangelsisdóm árið 2003 ásamt tveimur bræðrum sínum, sem einnig tilheyrðu þessum samtökum.

Hann lét sig hverfa þann 7. janúar síðastliðinn þegar hann hafði fengið leyfi til að heimsækja fjölskyldu sína, en með því skilyrði að hann myndi hafa daglega samband við lögreglu. Hann hafði fengið leyfi af þessu tagi sex sinnum á síðustu 18. mánuðum.

„Ég hef enn á ný ákveðið að láta skæruliðariffilinn ógna þeim sem stálu lífi okkar og seldu drauma okkar fyrir ágóða,” sagði Xiros í yfirlýsingu, sem hann las upp og birti á netinu í gær.

Í yfirlýsingunni gagnrýnir hann meðal annars nýnasistaflokkinn Gyllta dögun, og hvetur gríska herinn og lögregluna til að slást í lið með sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×