Innlent

Frumvarp um nýtt millidómstig í haust

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Ný lög um dómstóla gætu orðið að veruleika á næsta þingi. Það myndi þýða miklar breytingar á starfsemi Hæstaréttar.
Ný lög um dómstóla gætu orðið að veruleika á næsta þingi. Það myndi þýða miklar breytingar á starfsemi Hæstaréttar. Fréttablaðið/stefán
Stefnt er að því leggja fram frumvarp um millidómstig á haustþingi. Nefnd sem falið var fyrir tæpu ári að fjalla um hvernig millidómstigi yrði komið á laggirnar er um það bil að ljúka störfum og mun skila Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra skýrslu og tillögum innan skamms.

Á Íslandi er nú tveggja dómstiga kerfi, þar sem héraðsdómar dæma í málum á neðra stigi en Hæstiréttur á efra stigi. Annars staðar á Norðurlöndunum eru dómstigin þrjú og stefnt er að því að koma líku kerfi á hér á landi.

Samkvæmt þeim tillögum sem eru uppi á borðinu breytist starfsemi héraðsdómstóla ekki, mál koma til með að fara frá þeim til millidómstigsins þar sem lagt verður nýtt mat á vitnisburði og hægt verður að leggja fram ný sönnunargögn í málum. Breytingin er sú að í dag endurmetur Hæstiréttur ekki munnlega sönnunarfærslu.

Hæstiréttur myndi veita áfrýjunarleyfi en í því felst að Hæstiréttur ákveður sjálfur hvort hann tekur mál til meðferðar. Þá er gert ráð fyrir að Hæstiréttur geti tekið fyrir mál án þess að þau komi til kasta millidómstigsins ef ekki er talin þörf á að taka nýjar skýrslur af vitnum.

Rætt er um að fjöldi dómara á millidómstigi gæti orðið tólf til fimmtán og að dómstóllinn verði deildaskiptur.

Gera má ráð fyrir verulegri fækkun mála sem enda fyrir Hæstarétti, flestum málum ljúki fyrir millidómstigi.

Nú sitja níu dómarar í Hæstarétti, og dæma þrír, fimm eða sjö í hverju máli. Nái breytingarnar fram að ganga mun Hæstiréttur starfa í einni deild sem þýðir að allir dómararnir koma til með að dæma í öllum þeim málum sem koma til kasta Hæstaréttar.

Í framtíðinni kemur hæstaréttardómurum til með að fækka í fimm til sjö.

Nokkur ár eru síðan farið var að ræða nauðsyn þess að koma á laggirnar millidómstigi til að létta álagi af Hæstarétti.

Árið 2008 skipaði þáverandi dómsmálaráðherra nefnd sem fjallaði um hvernig væri hægt að tryggja milliliðalausa sönnunarfærslu í sakamálum. Innanríkisráðherra skipaði svo starfshóp árið 2011 sem taldi raunhæft að stofna millidómstig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×