Sviss komst yfir í fyrri hálfleik með marki VanessuBernauer sem skoraði eftir klafs í teignum. Ísland þurfti að færa sig framar í seinni hálfleik og var afgreitt með tveimur vel útfærðum skyndisóknum heimakvenna en mörkin skoruðu VanessaBürki og LaraDickenmann.
„Ég verð bara að vera hreinskilinn. Við töpuðum fyrir betra liði. Mér finnst sóknarlína þeirra það góð að við getum ekki staðist þeim snúning. Þær eru líka varnarlega mjög skipulagðar. Við vorum samt inni í þessu framan af og lögðum okkur fram. Það var andi í því sem við gerðum og ég er ánægður með framlag stelpnanna,“ sagði Freyr.

Íslenska liðið var vel undirbúið og taldi sig hafa fundið veikleika á svissneska liðinu. Því miður náðu stelpurnar okkar ekki að nýta þá þótt Freyr segi að leikáætlunin hafi gengið ágætlega upp. Ísland mætti einfaldlega ofjarli sínum í gær.
„Skyndisóknirnar þeirra fóru með okkur. Við lendum undir á 33. mínútu þegar við fáum á okkur klaufalegt mark. Í seinni hálfleik höfum við engu að tapa því við urðum að fá þrjú stig. Við færðum þá leikmenn framar á völlinn en staðsetningin á okkar leikmönnum þegar þær sækja hratt var þannig að við réðum ekki við það. Það var dauðadómur að fá á sig þetta mark og þurfa að fara að elta. Þá verður þetta svo rosalega erfitt.“

Sviss er sem fyrr í efsta sæti 3. riðils með 19 stig eftir sjö leiki en Ísland er með níu stig eftir fimm leiki. Draumurinn um efsta sætið er úti og nú verður Ísland að stefna á annað sætið í riðlinum.
Keppt er í sjö riðlum og fara sjö efstu liðin beint á HM en þau fjögur sem enda með bestan árangur í öðru sæti fara í umspil um síðasta lausa sætið. Ísland á eftir þrjá álitlega heimaleiki gegn Ísrael, Möltu og Serbíu auk tveggja leikja við Dani, heima og að heima.
„Okkar nálgun núna er að stefna á annað sætið. Það verður hörð keppni, við Dani líklega, og kannski Ísrael sem er þarna líka. Við verðum bara að vinna eins marga leiki og við getum og kíkja svo á töfluna í haust og sjá hvort stigafjöldinn dugi okkur. Ég hef fulla trú á því við sækjum þau stig sem við þurfum og við komumst í umspilið. Stelpurnar eru líka vanar því að fara í umspil. Við þekkjum þessa leið – Krýsuvíkurleiðina,“ sagði Freyr að lokum en næst er leikur við Dani í um miðjan júní.