Erlent

Hælisumsóknum fjölgar um 28 prósent

Bjarki Ármannsson skrifar
Hælisleitendur streyma enn frá Sýrlandi til að flýja áframhaldandi átök.
Hælisleitendur streyma enn frá Sýrlandi til að flýja áframhaldandi átök. Vísir/AFP
Hælisumsóknum í iðnríkjum fjölgaði um heil 28 prósent á árinu 2013 samkvæmt nýrri skýrslu frá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna.

Meginástæða fyrir fjölguninni er áframhaldandi átök í Sýrlandi. Á síðasta ári sóttu rúmlega 612 þúsund manns um hæli í 44 iðnríkjum víða um heim. Þetta er mesti fjöldi umsókna síðan árið 2001.

Fleiri flóttamenn frá Sýrlandi sækja nú um hæli en frá nokkru öðru landi. Einnig koma fjölmargir hælisleitendur frá löndum á borð við Afganistan, Írak og Sómalíu sem öll búa við mannskæð átök.

António Guterres, flóttamannafulltrúi Sameinuðu Þjóðanna, segir í tilkynningu að það sé greinilegt af skýrslunni að dæma að átökin í Sýrlandi hafi mikil áhrif, jafnvel langt frá Mið-Austurlöndum.

„Þetta undirstrikar mikilvægi þess að flóttamenn og samfélögin sem taka við þeim fái nægan og góðan stuðning,“ segir Guterres.

Mest fjölgaði hælisleitendum í Evrópu, en í álfunni allri sóttu 484 þúsund manns um hæli í fyrra.

Á Norðurlöndunum fjölgaði hælisumsóknum um 22 prósent en flestir sóttu um hæli í Svíþjóð. Í skýrslunni segir að 150 hafi sótt um hæli á Íslandi í fyrra sem gerir 36 prósenta aukningu frá því árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×