Erlent

Fjögur börn sem aldrei höfðu farið út fundust í íbúð

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Íbúðin er í 15 hæða blokk og nágrannar fjölskyldunnar vissu ekki af börnunum. Þau höfðu hvorki séð til þeirra né heyrt í þeim.
Íbúðin er í 15 hæða blokk og nágrannar fjölskyldunnar vissu ekki af börnunum. Þau höfðu hvorki séð til þeirra né heyrt í þeim. VÍSIR/AFP
Fjögur börn á aldrinum tveggja mánaða til sex ára fundust í íbúð í París sem þau höfðu aldrei farið út fyrir síðan þau fæddust. Frá þessu er sagt á vef The Guardian.

Upp komst um málið í síðasta mánuði þegar móðir barnanna sem er 27 ára fór með yngsta barnið á sjúkrahús. Starfsfólk sjúkrahússins hafði slíkar áhyggjur af heilsu barnsins að þau höfðu samband við barnaverndaryfirvöld.

Móðirin og faðir barnanna sem er 33 ára hafa verið sett í gæsluvarðhald og geta átt von á ákæru vegna vanrækslu. Engin merki eru um að börnin hafi verið beitt líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi. Foreldrarnir hafa verið atvinnulausir en fengu greiddar barnabætur.

Börnunum hefur verið komið í fóstur. Eldri börnin kunna varla að tala eða ganga og hafa aldrei sótt skóla. Ekkert þeirra hafði farið til læknis þar til móðirin fór með það yngsta á sjúkrahús í síðasta mánuði.

Börnin sváfu á dýnu í einu herbergja íbúðarinnar og engin merki eru um að börnin hafi dvalið í öðrum herbergjum hennar. Yfirvöld segja að íbúðin hafi ekki verið hrein en hún hafi ekki verið neinn sorphaugur heldur.

Íbúðin er í 15 hæða blokk og nágrannar fjölskyldunnar vissu ekki af börnunum. Þau höfðu hvorki séð til þeirra né heyrt í þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×