Erlent

Suður-Kórea girnist Járnhvelfinguna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eldflaugavarnarkerfið hefur grandað á þriðja þúsund flugskeyta frá Palestínu.
Eldflaugavarnarkerfið hefur grandað á þriðja þúsund flugskeyta frá Palestínu. Vísir/AFP
Suður-Kóresk yfirvöld hafa mikinn áhuga á að fjárfesta í ísraelska Iron Dome-eldflaugavarnarkerfinu er fram kom í máli framleiðanda þess, Rafael Advanced Defense Systems, í gær.

Iron Dome, sem mætti íslenska sem „Járnhvelfinguna“, notar fjarstýrðar eldflaugar til að granda Katyusha-flugskeytum sem eru mikið notuð af skæruleiðahreyfingum í Palestínu og Líbanon.

Árangurshlutfall kerfisins hefur verið um 90 prósent í átökunum sem nú standa yfir fyrir botni Miðjarðarhafs og hefur það aukið áhuga erlendra fjárfesta á kerfinu.

Formaður Rafael, Yedidia Yari, segir að áhugi suður-kóreskra yfirvalda megi rekja til hræðslu þeirra við flugskeyta- og eldflaugaárásir frá nágrönnum þeirra í norðri.

Iron Dome hefur grandað á þriðja þúsund flugskeyta síðan átökin milli Ísrael og Palestínu hófust fyrir liðlega mánuði síðan. Hver og ein varnarflaug kostar á bilinu 30 til 50 þúsund bandaríkjadali, næstum 6 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×