Erlent

Drápu hátt á annað hundrað skólabarna

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Foreldrar fylgja börnum sínum úr skólanum í Peshawar.
Foreldrar fylgja börnum sínum úr skólanum í Peshawar. vísir/ap
Hópur vopnaðra manna réðst inn í skóla í borginni Peshawar í Pakistan í gærmorgun, tók að skjóta á börn og kennara og drap fjölda fólks. Sjö mannanna voru með sprengjur festar við föt sín og sprengdu sig í loft upp.

Alls fórust þarna nærri 150 manns, þar af meira en 130 börn. Hátt í 120 manns særðust í árásinni og þurftu á læknisaðstoð á sjúkrahúsi að halda.

Hermenn komu fljótlega á staðinn og hófst þá skotbardagi milli árásarmanna og hermanna. Ekki var að sjá að árásarmennirnir hafi ætlað að taka gísla, heldur hafi ætlunin einungis verið sú að valda sem mestu manntjóni.

„Eini tilgangur þeirra virðist hafa verið sá að drepa þessi saklausu börn. Það gerðu þeir,“ sagði Asim Bajwa, yfirmaður í pakistanska hernum. „Þeir eru ekki bara óvinir Pakistans, heldur alls mannkyns.“

Pakistanska talibanahreyfingin Tahreek-e-Taliban lýsti yfir ábyrgð á árásinni. Hreyfingin vill setja bönd öfgatrúar á íbúa landsins og er meðal annars sérlega uppsigað við skólagöngu stúlkna.

Frændur Mohammad Baqair hughreysta hann en móðir hans, sem var kennari við skólann, lést í árásinni.vísir/ap
Nawaz Sharif, forsætisráðherra Pakistans, fordæmdi árásina. Hið sama gerði Barack Obama Bandaríkjaforseti og fjöldi annarra þjóðhöfðingja. 

„Ég er harmi lostin vegna þessa tilgangslausa og miskunnarlausa hryðjuverks í Peshawar,“ sagði pakistanska stúlkan Malala Yousafzai, sem fyrir fáeinum dögum tók á móti friðarverðlaunum Nóbels í Noregi. Hún varð sjálf fyrir árás talibana í október árið 2012, eftir að hafa vakið athygli fyrir baráttu sína fyrir réttindum kvenna til skólagöngu.

„Enginn málstaður getur réttlætt hrottaskap af þessu tagi,“ sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. 

Herinn í Pakistan brást strax í gær við með harðvítugum loftárásum á talibana í ættbálkahéruðunum í norðvesturhluta landsins, nálægt landamærum Afganistans.

Tahreek-e-Taliban er í samstarfi við afgönsku talibanahreyfinguna en beinir spjótum sínum sérstaklega að stjórnvöldum í Pakistan. Hreyfingin stóð í sumar fyrir árás á alþjóðaflugvöllinn í Karachi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×