Lífið

Dásamlegt að anda að sér sama lofti og þau

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Anna Margrét, Karen Lind og Stefán, aðdáendur Beyoncé og Jay Z
Anna Margrét, Karen Lind og Stefán, aðdáendur Beyoncé og Jay Z Vísir
„Það er dásamlegt að hugsa til þess að ég gæti verið að anda að mér sama lofti og hún,“ segir Anna Margrét Gunnarsdóttir, blaðamaður á Nýju Lífi, Beyoncé-danskennari og aðdáandi með meiru. „Ég var líka að velta fyrir mér hvað þau væru að gera í bústaðnum, það er alltaf frekar undarlegt dót í sumarbústöðum. Ætli þau séu ekki að spila Fimbulfamb eða lesa eldgamla lífsreynslusögu í Vikunni.“

Anna Margrét hefur haldið upp á Beyoncé síðan á tímum Destiny‘s Child. „Maður reyndi að gera svona hálfar fléttur eins og voru í Say My Name-myndbandinu. Ég get ekki sagt að það hafi tekist vel,“ segir hún, en því miður hefur hún aldrei séð söngkonuna á sviði. En hverjum heldur Anna að þau hjónin bjóði í afmælið í dag? „Sko, augljóslega Obama, er það ekki? Þetta verður jafnvel bara þriggja manna partí. Reyndar held ég að það sé ömurlegt að spila við hann, hann veit pottþétt öll svörin,“ segir hún hress.

Karen Lind Tómasdóttir er bloggari á Trendnet og gamall Beyoncé-aðdáandi. „Mér finnst þetta magnað, en ég ætlaði ekki að trúa því fyrst,“ segir hún. „Það er kannski asnalegt að segja frá því, en ég vorkenni þeim smá út af veðrinu, útsýnið er miklu verra. Ég verð líka að viðurkenna að ég hef verið að hugsa til þeirra. Ég hef upplifað Bláa lónið í roki og það er kvöl og pína,“ segir hún.

Karen hefur haldið upp á söngkonuna síðan í grunnskóla og gerir enn. „Ég hef bara séð hana einu sinni, sem er skammarlegt. Við vinkonurnar fórum á tónleika í Manchester og það dugði ekkert annað en dýrustu miðarnir alveg upp við sviðið. Maður grenjaði allan tímann, þetta var ótrúleg upplifun,“ segir Karen, en til að toppa allt voru tónleikarnir teknir upp og á mynddisknum má sjá Karen og vinkonu hennar upp við sviðið. En eigum við eftir að fá að sjá þau? „Það er svo augljóst að það er verið að villa fyrir. Hún er ekki að setja neitt á Instagram og á síðunni hennar er látið líta út fyrir að hún sé ægilega upptekin. Miðað við hversu prívat hún er þá stórefast ég að við fáum að sjá þau,“ segir hún.



Stefán Sigurðsson nemi er gríðarlegur aðdáandi Beyoncé. „Ég er búinn að vera forfallinn aðdáandi Beyoncé Giselle Knowles-Carter í áraraðir, það besta sem hefur hent mig var að sjá hana í Köben í maí 2013,“ segir hann. „Ég er vandræðalega mikill aðdáandi. Alveg svona að ég ætti ekkert að segja frá því sem maður á þrítugsaldri,“ bætir hann við. „Mér finnst geðveikt að þau séu á Íslandi, vona að fólk sjái sóma sinn í því að leyfa þeim að vera í friði og njóta lands og þjóðar. Við viljum ekki að mesta fagfólk heims upplifi Ísland sem eitthvert blindsker, yfirfullt af hálfvitum sem eltir saklaust fólk með snjallsímann eða áhugaljósmyndara-myndavélina sína á lofti því það heldur að einhver fréttaveita í útlöndum borgi milljón fyrir mynd af hnakkanum á Beyoncé í kraftgalla að stíga inn í Range Rover. Hættið þessu bara.“ 


Tengdar fréttir

Beyoncé birtir fallega skýjamynd

Telja aðdáendur söngkonunnar víst að Beyoncé hafi tekið myndina til að heiðra minningu Doris Rowland, móður Kelly Rowland.

„Látið þau í friði!“

Fjöldi fólks biðlar til fjölmiðla og ljósmyndara að láta hjónin Beyoncé og Jay Z í friði.

Beyoncé og Jay-Z við Skógafoss

Bandaríska stjörnuparið Beyoncé og Jay-Z heldur áfram að virða fyrir sér náttúru Íslands og lentu við Skógafoss um eittleytið í dag.

Sjáðu Beyoncé og Jay Z við Skógafoss

Vísir getur staðfest að poppstjarnan Beyoncé og eiginmaður hennar Jay Z eru stödd hér á landi. Mynd náðist af þeim ganga úr svartri þyrlu við Skógafoss.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×