Erlent

Alnæmisveiran sögð tekin að missa kraftinn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kannað hvort HIV-veiran leynist í blóði manns í Úganda.
Kannað hvort HIV-veiran leynist í blóði manns í Úganda. nordicphotos/AFP
Alnæmisveiran HIV hefur sums staðar tekið stökkbreytingum til að lifa af í líkömum fólks með sterk ónæmisviðbrögð. Þessi stökkbreyttu afbrigði hennar eiga síðan erfiðara með að taka sér bólfestu í öðru fólki og þurfa lengri tíma til að gera fólk alvarlega veikt.

Þetta fullyrða vísindamenn við Oxford-háskóla í Bretlandi. Þeir hafa gert rannsóknir á HIV-smituðum í Botsvana og í Suður-Afríku, og tóku eftir því að í Botsvana á veiran tíu prósentum erfiðara með að fjölga sér en í Suður-Afríku.

Skýringuna telja þeir liggja í því að veiran kom til Suður-Afríku tíu árum eftir að hún kom til Botsvana. Og þetta vekur vonir um að því lengri tími sem líði frá því veiran gerir sig heimakomna, því veikari verði hún. Á endanum jafnvel tiltölulega meinlaus.

Frá þessu er skýrt á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC, og vitnað í grein vísindamannanna í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences.

„Við erum að fylgjast með þróuninni gerast fyrir augum okkar og það vekur furðu hve hraðfara þetta ferli hefur verið,“ hefur BBC eftir Philip Goulder, einum vísindamannanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×