Fótbolti

Hörður Björgvin: Mikill heiður fyrir mig að vera í landsliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar frá Brüssel skrifar
Hörður Björgvin spilar með Cesena á Ítalíu
Hörður Björgvin spilar með Cesena á Ítalíu vísir/Getty
Varnarmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon var valinn í landslið Íslands sem mætir Belgíu í Brussel í kvöld og Tékklandi í Plzen á sunnudag en þessi 21 árs nýliði er ólmur í að sanna sig fyrir þjálfurum íslenska liðsins.

„Það er mikill heiður að hafa verið kallaður inn í hópinn enda er hann afar sterkur,“ sagði Hörður Björgvin í samtali við Fréttablaðið í gær. „Ég bíð bara rólegur eftir mínu tækifæri. Kannski kemur það á morgun [í dag] en þegar það gefst þá ætla ég mér að nýta það.“

Hörður Björgvin, sem æfði einnig með landsliðinu fyrir leikinn gegn Tyrkjum í haust, leikur með Cesena í ítölsku úrvalsdeildinni þar sem hann hefur verið í stóru hlutverki að undanförnu.

„Ég er ánægður með mína frammistöðu en liðinu hefur ekkert vegnað allt of vel,“ segir hann en Cesena er í næstneðsta sæti deildarinnar með sjö stig. „Við erum nú búnir með öll stóru liðin en það eru einfaldlega engir auðveldir leikir í þessari deild.“

Hann spilar vitanlega oftast sem miðvörður en hefur einnig leyst aðrar stöður. „Ég hef stundum leyst vinstri bakvörðinn af hólmi þegar þess hefur þurft og þá var ég settur inn sem djúpur miðjumaður gegn Roma um daginn. Það entist bara í 20 mínútur enda náðu þeir að loka vel á mig,“ sagði hann í léttum dúr.

Hörður Björgvin leikur með liðinu sem lánsmaður frá Ítalíumeisturum Juventus en þar hefur hann verið síðan 2011. „Ef ég stend mig vel hjá Cesena eru allir möguleikar opnir en ég vona bara það besta. Landsliðið hjálpar auðvitað mikið til að því leyti,“ sagði hann enn fremur.


Tengdar fréttir

Alfreð: Moyes örugglega góður kostur

Það hefur á ýmsu gengið hjá Real Sociedad, liði Alfreðs Finnbogasonar á Spáni. Jagoba Arrasate var rekinn úr stöðu knattspyrnustjóra á dögunum og var David Moyes, fyrrum stjóri Man. Utd, ráðinn í starfið í gærkvöldi. Það lá þó ekki fyrir er Fréttablaðið hitti á Alfreð í gær.

Kennslustund Bales nýttist landsliðinu okkar vel

Íslenska landsliðið hefur haldið hreinu í 422 mínútur eða í níu síðustu hálfleikjum sem liðið hefur spilað. Á sama tíma hefur íslenska liðið skorað tíu mörk í röð án þess að mótherjarnir hafi svarað.

Kári: Líklega heppinn að deyja ekki í þessum leik

Kári Árnason, leikmaður Rotherham í Englandi, reiknar ekki með öðru en að verða klár í slaginn þegar Ísland mætir Tékklandi í undankeppni EM 2016 á sunnudagskvöld. Hann verður þó ekki með er strákarnir mæta Belgíu í vináttulandsleik ytra annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×