Erlent

Glæpagengi ráðast á konur og stúlkur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Israel Ticas Starfar hjá saksóknara í Hondúras við að grafa upp ómerktar grafir.
Israel Ticas Starfar hjá saksóknara í Hondúras við að grafa upp ómerktar grafir. vísir/ap
Meira en 1.500 glæpagengi eru skráð í bækur öryggismálaráðuneytisins í El Salvador. Þau vaða uppi með ofbeldi og halda þjóðinni í heljargreipum. Konur og stúlkur verða einna verst úti, en til þessa hefur þögnin að mestu ríkt um hið kynbundna ofbeldi.

„Allir meðlimir þessara glæpagengja ráðast á konur. Öll glæpagengin haga sér svona,“ segir Silvia Juares, lögmaður samtaka sem fylgjast með kynbundnu ofbeldi í El Salvador. „Ef það eru 60 til 70 þúsund glæpamenn, ímyndið ykkur þá hve mörgum konum hefur verið misþyrmt.“

Samkvæmt opinberum tölum hafa 239 konur og stúlkur verið myrtar í El Salvador það sem af er þessu ári, og 201 að auki er saknað. Frá ársbyrjun og fram í ágúst var tilkynnt um 361 nauðgun til lögreglunnar.

Tölfræðin er hins vegar afar óáreiðanleg, enda er almennt talið að um það bil tuttugu prósent kvenna tilkynni um nauðganir. Líklegt er að þetta hlutfall sé enn lægra í El Salvador. Vera má að dauðsföll og mannshvörf séu heldur ekki tilkynnt í öllum tilvikum.

Margar konur hafa flúið land frekar en að þurfa að leita á náðir réttarkerfis, sem oftar en ekki lætur ofbeldi gegn konum óátalið. Margar leita hælis í Bandaríkjunum eftir að hafa verið rænt og nauðgað.

„Við höfum séð mikla fjölgun,“ segir Lindsay Toczlylowski, sem er lögfræðingur hjá kaþólskum líknarsamtökum í Los Angeles. „Þannig þróast gengjastríðin. Við sjáum þetta annars staðar þar sem stríðsástand ríkir og nauðganir eru notaðar sem vopn.“

Sex milljónir manns búa í El Salvador. Tíðni morða er þar hærri en í nokkru öðru landi að undanskildu nágrannalandinu Hondúras.

Jafnan eftir miklar rigningar koma í ljós ómerktar grafir þar sem fórnarlömb glæpa hafa verið falin.

Afbrotafræðingur að nafni Israel Ticas hefur það að starfi að grafa upp lík úr ómerktum gröfum fyrir skrifstofu ríkissaksóknarans. Hann segir að í meira en helmingi þeirra grafa, sem hann hefur fundið, séu lík kvenna eða stúlkna.

„Það eru örugglega hundruð slíkra mála og jafnvel þúsundir,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×