Innlent

Ekki um hópuppsögn að ræða

Heimir Már Pétursson skrifar
Tugir starfsmanna missa vinnuna á næstunni.
Tugir starfsmanna missa vinnuna á næstunni. mynd/páll ketilsson
Þótt tugir manna séu við það að missa vinnuna hjá Primera Air vegna flutnings fyrirtækisins til útlanda, telja stjórnendur þess að ekki sé um hópuppsögn að ræða. Trúnaðarmaður starfsmanna segir launakjör og réttindi starfsmanna mun lakari í því landi sem starfsemin verður flutt til.

Í dag vinna um 65 manns hjá Primera á skrifstofum félagsins í Kópavogi en nú þegar er búið að segja upp níu manns. Fyrirtækið stefnir á að vera svo gott sem alfarið flutt til Riga næsta vor og hafi þá 40 til 50 manns misst vinnuna.

Kristinn Örn Jóhannesson, trúnaðarmaður starfsmanna í VR, segir Primera fara fram hjá lögum um hópuppsagnir en til þess að um hópuppsögn sé að ræða þarf að segja tíu starfsmönnum eða fleiri upp. „Það á að segja öllum upp á einhverjum tíma. Við lítum á það sem hópuppsögn og að framkvæmdin sé með þeim hætti að félagið sé að fara í kring um lögin um hópuppsögn,“ segir Kristinn Örn.

Hrafn Þorgeirsson, forstjóri Primera, segir að þar sem færri en tíu hafi verið sagt upp telji fyrirtækið ekki um hópuppsögn að ræða.

„Raunverulega flutti fyrirtækið árið 2009 til Danmerkur og þetta er bara framhald af því. En við sáum náttúrulega fram á að þegar við erum komnir með flugfélag í Danmörku og Lettlandi að það var bara ekki skynsamlegt að vera með þriðju skrifstofuna á Íslandi,“ segir Hrafn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×