Innlent

Þurfa að endursemja við lánardrottna sína

Sveinn Arnarsson skrifar
Vatnið úr sprungunni skapar mikinn hita og raka í göngunum.
Vatnið úr sprungunni skapar mikinn hita og raka í göngunum. Vísir/Auðunn
Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segir að innan tíðar verði verkáætlun Vaðlaheiðarganga endurskoðuð þar sem ljóst er að verkinu verði ekki lokið í lok árs 2016 eins og núverandi áætlun segir til um. Til stóð að hefja afborganir af lánum ári eftir opnun ganganna. Valgeir segir að nú þurfi að ræða við lánardrottna vegna tafa á greiðslum.

Samkvæmt Einari Hrafni Hjálmarssyni, staðarhaldara Ósafls sem fer með framkvæmd verksins, er gerð nýrrar verkáætlunar ekki komin langt. „Ný verkáætlun er í skoðun, við erum ekki búnir að setja niður fyrir okkur hvenær hún verður klár og engin mynd komin á hana eins og staðan er núna. Nú vinnum við í því í rólegheitum.“

Lánin eru með ríkisábyrgð en enn er gert ráð fyrir að takist að semja um greiðslufrest. „Við þurfum að endursemja við lánardrottna þar sem heppilegast er að gera framtíðargreiðsluáætlun eftir að göngin hafa verið opin í eitt ár, þannig að komin verði reynsla og við vitum hver umferð um þau verður,“ segir Valgeir.

Heitt vatn Eyjafjarðarmegin hefur haft áhrif á framkvæmdina, en vatnið er 46 gráðu heitt og aðeins innar er það heitara, eða 59 gráður. „Við teljum að það fari ekki yfir sextíu gráður,“ segir Valgeir. Áður hefur verið glímt við heitt vatn í jarðgöngum hér á landi. Í Hvalfjarðargöngunum var rúmlega sextíu gráðu heitt vatn og um 75 gráður við Kárahnjúkavirkjun.

„Við erum hættir að bora Eyjafjarðarmegin og höfum flutt okkur yfir í Fnjóskadal. Það er ekki vatnið sem veldur okkur vanda, heldur hitinn og rakinn.“ En allt þetta hægir á framkvæmdinni. „Þetta er öðruvísi en við ætluðum okkur og upphafleg áætlun stenst ekki.“ Til stóð að vinna á tveimur borvögnum, öðrum Eyjafjarðarmegin og hinum Fnjóskadalsmegin. En í ljósi aðstæðna Eyjafjarðarmegin hefur framkvæmdum þar verið hætt tímabundið og er einungis unnið við gangagröft frá Fnjóskadal.

Verkkaupi hefur þrýst á verktakann, Ósafl, um að vinna að gangagreftri á báðum stöðum. „Í sumar fórum við aðeins að þrýsta á verktakann um að hefjast handa Fnjóskadalsmegin. Í raun hófust þeir handa þremur mánuðum seinna en áætlanir gerðu ráð fyrir.“

Nú er búið að vinna um fjörutíu prósent af verkinu og vegna alls hefur fallið á aukakostnaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×