Innlent

Leikskólar fylgjast með mengun

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Loftgæðin breytast oft hratt og þá þarf að bregðast við því.
Loftgæðin breytast oft hratt og þá þarf að bregðast við því. fréttablaðið/Vilhelm
Foreldrar leikskólabarna hafa margir áhyggjur af áhrifum gosmengunar á börnin sín. Leikskólastjórar fylgjast flestir náið með loftgæðum og hafa börnin inni ef vafi er á að þau séu í lagi. Loftgæði voru í góðu lagi í Reykjavík í gær, enda léku börnin sér þá úti.

En loftgæðin breytast oft hratt og gosmengun hefur mælst í borginni af og til síðustu daga.

Edda Margrét Jensdóttir, leikskólastjóri á Bakkaborg, segir foreldra barnanna þar velta gosmenguninni töluvert fyrir sér þar sem börnin séu oft úti yfir daginn og margir hafi áhyggjur af áhrifum hennar. Hún segir foreldra oft hringja og athuga hvort aðstæður hafi ekki örugglega verið kannaðar en það sé alltaf gert áður en börnin fara út.

Edda Margrét segir leikskólastjóra skoða heimasíðu Umhverfisstofnunar þar sem hægt er að sjá hversu mikil gosmengun mælist á hverjum stað hverju sinni. Þá fylgist Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vel með gosmenguninni og sendir tilkynningar til allra grunn- og leikskóla ef ástæða þykir til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×