Þá féll stuðningsmaður FH yfir handriðið í stúkunni og féll með andlitið beint á steypukant. Hann mátti þakka fyrir að sleppa lifandi úr fallinu þó svo hann sé ansi illa farinn og verði lengi að ná fullri heilsu.
FH-ingurinn, Harjit Delay, gagnrýndi aðstæður á Þórsvelli harkalega í viðtali við íþróttadeild um síðustu helgi og sagði það ekki vera spurningu um hvort heldur hvenær illa færi á þessum velli. Hann sagði handriðið vera stórhættulegt og að börn væru í hættu á vellinum.
Fréttablaðið fór í smá úttekt á þeim völlum þar sem fall úr stúku er hátt. Sú úttekt leiddi í ljós að hættulegasta stúkan er á þeim velli sem Harjit fer oftast á – Kaplakrikavelli.
Það er ekkert handrið í Krikanum, aðeins steypukantur sem er ekki nema 84 sentimetrar á hæð. Á móti kemur að ef einhver lendir í því að detta úr stúkunni í Krikanum þá lendir hann líklega á grasi. Það kemur reyndar smá steypukantur út þar sem varamannabekkurinn er.
Handriðið á Stjörnuvelli er litlu hærra, 87 sentimetrar, en fallið þar er talsvert minna en úr stúkunni í Krikanum. Ekkert gras er þó þar fyrir neðan heldur harðar hellur.

Þórsvöllur er með hæsta handriðið af þeim stúkum þar sem hægt er að slasa sig með því að falla úr stúkunni. Hæðin á handriðinu, ef staðið er eðlilega í stúkunni, er 121 sentimetri. Hægt er að klifra upp á steypukant og þá er hæðin 82 sentimetrar. Fallið er aftur á móti hátt, tæpir 4 metrar, og lendingarsvæðið er hörð steypa.
Samkvæmt þessari úttekt er Þórsvöllurinn öruggasti völlur landsins þar sem stúkan er hátt uppi og hægt að falla niður.
„Menn verða að fara eftir byggingarreglum og lögum er menn byggja svona stúkur. Það er ekkert talað um hæð handriða í mannvirkjareglum KSÍ,“ segir Ómar Smárason hjá KSÍ aðspurður hvort Knattspyrnusambandið sé með einhverjar reglur um hæð handriða.
Í byggingarreglugerð er talað um hæð handriða í fjölbýlum. Þar á hæð handriða að vera 110 sentimetrar á fyrstu hæð en 120 sentimetrar á annarri hæð og ofar. Þórsvöllurinn er sá eini af áðurtöldum völlum sem uppfyllir þær kröfur.