Erlent

Ísraelar fallast á nýtt vopnahlé

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Fylgst með ógnvaldinum Börn á Gasa fylgjast með ísraelskri herþotu fljúga yfir.nordicphotos/AFP
Fylgst með ógnvaldinum Börn á Gasa fylgjast með ísraelskri herþotu fljúga yfir.nordicphotos/AFP
Sprengjuárásir Ísraelshers á íbúa Gasa höfðu síðdegis í gær kostað 1.880 manns lífið frá því þær hófust fyrir tæpum mánuði. Ísraelar féllust í gær á tillögur Egypta um þriggja daga vopnahlé, sem átti að hefjast í morgun. Palestínumenn hafa einnig fallist á þetta vopnahlé. Árásirnar hófust þann 8. júlí og létu Ísraelar sér í fyrstu nægja loftárásir, en þann 17. júlí var landherinn sendur inn á Gasasvæðið.

Á sunnudaginn sprengdu Ísraelar enn eina skólabygginguna, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa notað sem bráðabirgðaskýli fyrir íbúa á flótta undan átökunum. Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, sagði að Ísraelar gætu engan veginn réttlætt morð sín á börnum og fjöldamorð á almennum borgurum með því að öryggi þeirra væri ógnað.

Alls hafa Ísraelar gert meira en 4.600 loftárásir þessar fjórar vikur, en Palestínumenn hafa skotið meira en 3.200 sprengjuflaugum yfir til Ísraels. Rúmlega 60 Ísraelar hafa fallið, þar af þrír almennir borgarar.

Ísraelar segja höfuðmarkmið sitt vera að eyðileggja öll neðanjarðargöng á Gasasvæðinu, en liðsmenn Hamas-samtakanna hafa meðal annars notað þessi göng til þess að geyma og flytja sprengjuflaugar sínar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×