Innlent

Flýtur yfir bryggjuna á Flateyri

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Allt í grænum sjó. Sjórinn flæðir yfir bryggjuna á Flateyri þegar stórstreymt er og færir hana í kaf.
Allt í grænum sjó. Sjórinn flæðir yfir bryggjuna á Flateyri þegar stórstreymt er og færir hana í kaf. Mynd/María Hrönn Valberg
Í mestu stórstreymisflóðum fer bryggjan á Flateyri undir sjó, nú síðast á mánudaginn. Að sögn Guðmundar M. Kristjánssonar, hafnarstjóra Ísafjarðarhafna, fór bryggjan að síga skömmu eftir að hún var byggð rétt eftir síðustu aldamót.

„Þetta er náttúrlega bagalegt en hún er samt alveg nothæf,“ segir hann. Hann segir hafnarsjóð ekki nógu digran til að koma höfninni í samt lag en samkvæmt gildandi lögum er það einvörðungu á könnu Ísafjarðarhafna.

„Það liggur reyndar fyrir nýtt frumvarp sem gefur okkur von um að hægt verði að fá fé til verkefna sem þessa en þetta frumvarp er bara alltaf kjaftað í kaf,“ segir hann.

María Hrönn Valberg, íbúi á Flateyri, segir að vinsælt sé hjá krökkunum að dorga niðri á bryggju og eins slást sjóstangaveiðimenn í hóp með þeim þar þegar of illa viðrar til sjóferða. Vestfirðingarnir eru ekki einir um vandamál sem þetta en í Keflavíkurhöfn fara nokkrar bryggjur á kaf í mesta stórstreymi.

Að sögn hafnarvarðar gerist það venjulega einu sinni í mánuði að ein þeirra fari á kaf en einnig getur farið svo að það flæði yfir fjórar bryggjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×