Innlent

Styttist í sex ára afmæli haftanna

Þorsteinn Víglundsson.
Þorsteinn Víglundsson.
Afnám gjaldeyrishafta gæti leitt til veikingar krónunnar með tilheyrandi verðhækkunum hér innanlands og aukinni verðbólgu. Þrátt fyrir það telja Samtök atvinnulífsins (SA) að sú efnahagslega áhætta sem fylgir höftunum, og mun líklega skapast, sé meiri en sú sem gæti falist í afnámi þeirra.

Þetta kom fram í grein Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra SA, í Fréttablaðinu í gær. Þar rekur Þorsteinn verkefnið við afnám haftanna sem hann segir það mikilvægasta sem íslensk stjórnvöld standi frammi fyrir í dag. Þorsteinn segir aðstæður til afnáms mjög hagstæðar þar sem efnahagslífið sé í ágætu jafnvægi.

„Lykilforsenda þess að hægt verði að koma í veg fyrir ofhitnun hagkerfisins er hratt afnám fjármagnshafta. Efnahagsleg áhætta afnáms hafta er mun minni en hættan sem fylgir enn einni rússíbanareið íslensks efnahagslífs með kunnuglegri kollsteypu í lok ferðar,“ segir Þorsteinn.

Höftunum var komið á í nóvember 2008 eftir að landið hafði orðið fyrir barðinu á bankakreppu. Gengi krónunnar hafði þá lækkað og hætta á stórfelldu útstreymi fjármagns skapast. Það hefði getað valdið enn meiri gengislækkun og verðbólgu og því ákvað Seðlabankinn að hefta tímabundið útflæði gjaldeyrisins. Upphaflega áttu höftin að falla úr gildi haustið 2010. Afnám þeirra hefur dregist og vegur þar þyngst töf við uppgjör þrotabúa föllnu bankanna, eins og kemur fram í nýrri Skoðun Viðskiptaráðs Íslands.

Á þeim rúmu fimm og hálfu ári sem liðin eru hefur ítrekað verið bent á þann efnahagslega kostnað sem höftunum fylgir. Viðskiptaráð hefur til dæmis áætlað að þau hafi kostað íslensk fyrirtæki um 80 milljarða króna í útflutningstekjur á síðasta ári. Höftin eru einnig sögð draga úr nýliðun og vexti íslenskra fyrirtækja og leiða til þess að sprotafyrirtæki færi starfsemi sína úr landi. Höftunum hefur því oft verið líkt við girðingu sem erlendir fjárfestar vilji ekki festast innan með fjármuni sína.

Þorsteinn segir í grein sinni að óttinn við gengislækkun og meðfylgjandi verðbólgu sé líklegasta skýringin á „aðgerðaleysi stjórnvalda“ þegar komi að afnámi haftanna.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur að undanförnu svarað spurningum um afnám haftanna á þann veg að þau verði jafnvel afnumin í ár. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í síðasta mánuði sagði hann stjórnvöld hafa nýtt tímann vel til að kortleggja vandann.

„Ég er með væntingar um að það verði stórir áfangar stignir á þessu ári,“ sagði Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×