Innlent

Fuglalíf við landið gjörbreytist á áratug

Jón Sigurður Einarsson skrifar
Það er víðast liðin tíð að menn kvarti yfir fjölda máva hér við land en það hefðu þótt ótrúleg tíðindi ekki alls fyrir löngu.
Það er víðast liðin tíð að menn kvarti yfir fjölda máva hér við land en það hefðu þótt ótrúleg tíðindi ekki alls fyrir löngu. Fréttablaðið/Pjetur
Gríðarlegar breytingar hafa átt sér stað í stofnum sjófugla á einum áratug hér við land. Fræðimenn sem Fréttablaðið talaði við segja að stofnhrun hafi sligað sumar af þeim fuglategundum sem jafnvel voru taldar helst til stofnstórar ekki alls fyrir löngu.

Ástæðurnar geta verið af ýmsum toga en þó ber fræðimönnum saman um að hrun sílastofnsins árið 2005 sé mikill áhrifavaldur í þessari þróun. Arnþór Garðarsson, fuglafræðingur og fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, segir það afar súrt í broti að Hafrannsóknastofnun hafi hætt rannsóknum sínum á sílum. „Það er stundum eins og menn haldi að gögnin komi fljótandi til þeirra en því miður þarf að rannsaka hluti til þess að afla þeirra,“ segir hann.

Ólafur S. Ástþórsson, sitjandi forstjóri Hafró, segir það vissulega rétt að í ár hafi stofnunin ekki bolmagn til að leggja í rannsóknarleiðangur til að rannsaka síli eins og gert hefur verið undanfarin ár. „Við höfum þurft að draga saman og þetta er eitt af því sem við sáum okkur ekki fært að sinna, því miður,“ segir hann.

Rita, langvía og stuttnefja eiga orðið erfitt uppdráttar hér við land eftir magra tíð en einnig svartbakur, hvítmávur og sílamávur sem fyrir um áratug þóttu víða heldur margir og fyrirferðarmiklir.

Ævar Petersen fuglafræðingur hefur í mörg ár talið fjölda ritu, sérstaklega á Breiðafirði, og hvítmávs á landinu öllu. Benda þær tölur til þess að hvítmávur sé að hverfa og ritu hefur fækkað sífellt í árafjöld á Breiðafirðinum. Ekki eru gögnin hans Arnþórs meira upplífgandi því þau bera það með sér að svartfugl eigi í verulegum vandræðum og hefur fækkað um helming á tuttugu árum.

Eins og gefur að skilja hefur sílamávi fækkað verulega og má tala um stofnhrun hjá honum. Það eru þó ekki einungis sjófuglar sem berjast í bökkum því snjótittlingur, sem var einn útbreiddasti fugl landsins, er orðinn frekar fátíður jafnvel á stöðum sem áður voru hans mikilvægustu varpstöðvar.

Ekki er þó allt hábölvað því þessarar þróunar hefur lítt orðið vart á Norðausturlandi. Þar virðist vera vin í þessari eyðimörk sem við flestum sjófuglum blasir. Þar að auki virðast breyttar aðstæður vera súlu og dílaskarfi í hag en þeim fjölgar og þrífast fuglarnir vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×