Innlent

Sniglarnir koma upp bifhjólastæðum

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Brátt geta menn lagt bifhjólum í þar til gerð stæði um allan bæ.
Brátt geta menn lagt bifhjólum í þar til gerð stæði um allan bæ. mynd/Íma Fönn Hlynsdóttir
Þótt gert sé ráð fyrir því í lögum að stæði séu til fyrir bifhjól á fjölmennustu stöðum þá sáust þess fá merki þar til Sniglarnir tóku sig til og eru nú að bæta úr.

„Við fórum í það að búa til þessi skilti og höfum nú þegar fengið að koma þeim upp í Smáralind. Svo er Kringlan að detta inn og fleiri staðir,“ segir Hrönn Bjargar Harðardóttir, formaður Sniglanna.

Leitað hefur verið til borgaryfirvalda og segir Hrönn að væntanlega verði slíkum stæðum komið fyrir við Hverfisgötu og á fleiri stöðum í höfuðstaðnum. Eins hefur verið sent erindi til bæjaryfirvalda í Hafnarfirði um að koma upp bifhjólastæðum við bókasafnið og Súfistann. Skipulags- og byggingarráð svaraði reyndar erindinu á þann veg að næg bílastæði væri að finna í miðbænum eftir klukkan sex síðdegis.

Skiltið
„Við viljum náttúrlega fá að leggja löglega og eins koma hjólunum af gangstéttum og öðrum stöðum þar sem þau eiga helst ekki að vera. Bæði geta þau valdið óþægindum fyrir vegfarendur og svo er þetta líka spurning um að fá að hafa þau í friði en virðing fyrir eignum manna er stundum takmörkuð þegar hjólin eru ekki á sérstökum stæðum.“

Mikið var um að vera hjá Sniglunum um helgina en þá voru þeir með landsmót í Húnaveri sem einnig var afmælishátíð því Sniglarnir fagna 30 ára afmæli í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×