Erlent

Wilders náði ekki að búa til breiðfylkingu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Marine Le Pen og Geert Wilders. Ekkert varð úr þinghópi hægri þjóðernissinna, þrátt fyrir gott gengi í kosningum.
Marine Le Pen og Geert Wilders. Ekkert varð úr þinghópi hægri þjóðernissinna, þrátt fyrir gott gengi í kosningum. Vísir/AFP
Geert Wilders, leiðtogi hollenska Frelsisflokksins, segir að hægri þjóðernissinnum hafi ekki tekist að öngla saman liði í þinghóp á Evrópuþinginu. Þýska tímaritið Der Spiegel hefur eftir honum að hann hafi ekki viljað taka pólska flokkinn KNP inn í hópinn, því leiðtogi þess flokks hafi gengið of langt í yfirlýsingum sem lýsa gyðingaandúð og karlrembu.

Til þess að geta myndað þinghóp þarf 25 þingmenn frá að minnsta kosti fimm aðildarríkjum ESB. Wilders hafði, ásamt Marine Le Pen og frönsku Þjóðarfylkingunni hennar, fengið hægri þjóðernisflokka frá Austurríki, Belgíu og Ítalíu til liðs við sig, en það dugði ekki til. Fresturinn til að mynda þinghópa fyrir næsta kjörtímabil rann út í gær.

Nigel Farage, leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins (UKIP), fékk Ítalann Beppe Grillo til liðs við sig, ásamt flokkum Evrópuandstæðinga frá Litháen, Frakklandi, Tékklandi, Lettlandi og Svíþjóð, og náði að mynda nýjan þinghóp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×