Erlent

Birta drög að stjórnarskrá sjálfstæðs ríkis

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Nicola Sturgeon og Alex Salmond á flokksþingi Skoska þjóðarflokksins í apríl síðastliðnum.
Nicola Sturgeon og Alex Salmond á flokksþingi Skoska þjóðarflokksins í apríl síðastliðnum. Nordicphotos/AFP
Skoski þjóðarflokkurinn, sem fer með völd í heimastjórn Skotlands, hefur birt fyrstu drög að stjórnarskrá sjálfstæðs skosks ríkis.

Skotar greiða í haust atkvæði um það hvort lýsa eigi yfir sjálfstæði Skotlands. Verði það samþykkt er stefnt að sjálfstæði í mars árið 2016.

Samkvæmt stjórnarskrárdrögunum er gert ráð fyrir því að Bretadrottning verði áfram þjóðhöfðingi Skotlands.

Það var Nicola Sturgeon, aðstoðarforsætisráðherra Skotlands, sem kynnti drögin í gær. Þessi drög eru einungis sögð vera eins konar beinagrind væntanlegrar stjórnarskrár, en hún eigi að fá á sig fyllri mynd í umræðum næstu mánuðina.

Fyrsta grein stjórnarskrárdraganna hljóðar svo: „Í Skotlandi er fólkið fullvalda.“ Í þeirri næstu segir: „Í Skotlandi hefur fólkið fullveldisrétt til sjálfsákvörðunar og valfrelsi um það með hvaða hætti ríki þess á að vera skipað og hvers konar stjórnarháttum fólk á að lúta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×